Fjárlög 1996

Þriðjudaginn 17. október 1995, kl. 22:09:36 (396)

1995-10-17 22:09:36# 120. lþ. 13.7 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að kveðja mér aftur hljóðs í þessari umræðu en sé mig knúinn til að gera það vegna þess að mér skilst að hæstv. heilbrrh. hafi í annað sinn komið fram með þá fullyrðingu að Alþfl. hafi skilið eftir sig milljarð í óreiðu í heilbrrn. frá því í fyrra eins og hún mun hafa sagt hér áðan.

Ég er hér með frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1994, það er árið í fyrra. Í grg. frv. um heilbr.- og trmrn. segir orðrétt:

,,Greiðslur ráðuneytisins voru 55,3 millj. kr. hærri en fjárveitingar. Sótt er um viðbótarheimild vegna umframgjalda að fjárhæð 199,7 millj. kr. en óhafnar fjárveitingar voru 144,4.`` Með öðrum orðum eru óhafnar fjárveitingar álíka háar og viðbótarheimildir vegna umframgjalda. Er þetta að skilja eftir sig einn milljarð kr. í óreiðu frá því í fyrra?

Nú skulum við gera ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi mismælt sig. Og ekki átt við árið í fyrra heldur árið í ár, árið 1995. Það liggur hér líka á borðum þingmanna frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1995. Og virðulegi forseti, ég vil gjarnan vitna í það sem segir þar um heilbr.- og trmrn.

Þar er lagt til að fjárheimild heilbr.- og trmrn. verði aukin um samtals 2.334,6 millj. kr. Af þessu er 1.330 millj. vegna lífeyristrygginga. Það er skýrt þannig í fyrsta lagi að þar sé um að ræða 630 millj. vegna kostnaðarauka í eingreiðslum vegna ákvörðunar ríkisstjórnar um að þær skyldu greiddar í samræmi við ákvæði kjarasamninga, þ.e. ákvörðun sem ríkisstjórn tók. Er það að skilja eftir sig óreiðu? Í öðru lagi segir: Í annan stað hækka bæturnar skv. gildandi lögum miðað við almennar launabreytingar í landinu. Það er það sem á að afnema í almannatryggingakerfinu eins og boðað er í fjárlagafrv. Þar eru um 700 millj. kr. að ræða. Með öðrum orðum, allt það umframfé sem sótt er um vegna lífeyristrygginga er annars vegar vegna ákvæða í lögum um tengingu bóta við kjarasamninga og hins vegar ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að eingreiðslur skuli vera í samræmi við ákvæði sömu samninga. Um sjúkratryggingar er sagt að þar er farið fram á aukið framlag upp á 550 millj. kr. Hvernig er það skýrt? M.a. með því að sparnaður hafi ekki náðst í sérfræðilækningum þar sem upptöku tilvísanakerfis var frestað. Hver frestaði því? Var það sá sem hér stendur? Nei, það var hæstv. heilbrrh. sem gerði það. Í öðru lagi, virðulegi ráðherra, ég er að lesa hér texta eftir fjmrn. þar sem þetta er skýrt og ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra hafi lesið það þó hann hafi ekki gefið sér tóm til þess að lesa allt það sem segir í grg. fjmrn. með fjárlagafrv. Þarna eru með öðrum orðum um 100 millj. af þessum 550 vegna frestunar tilvísunarkerfis. Aðrar 100 millj. eru skýrðar af fjmrn. með því að ekki hafi náðst fram lækkun lyfjakostnaðar vegna frestunar á gildistökum nokkurra ákvæða nýrra lyfjalaga. Hver ber ábyrgð á því? Hver vill fresta því enn frekar? Hver leggur hér fram frv. þar sem sagt er að verði það samþykkt muni það kosta 100 millj. kr. að mati ríkisins á næsta ári? Það er fjmrn. sem leggur það fram sem fylgiskjal með frv. frá hæstv. heilbrrh.

Síðan kemur að héraðslækni í Reykjavík. Af hverju náðist ekki það takmark? Vegna þess að lagabreytingar sem þurfti að gera til að fella niður fjárveitingar til héraðslæknisins í Reykjavík voru ekki samþykktar af Alþingi eftir að fjárlög voru afgreidd. Sama um héraðslækni á Norðurlandi eystra. Um sjúkrahúsin er það sagt að farið er fram á tæplega 40 millj. vegna sjúkrahússins í Vestmannaeyjum vegna dóms Hæstaréttar. Er það óreiðuskuld frá Alþfl.? Það er rætt um Ríkisspítala og Sjúkrahús Reykjavíkur og tekið fram að auknar fjárheimildir séu vegna sérstaks samkomulags sem gert hafi verið við stjórnendur þessara tveggja sjúkrahúsa af fyrrv. ríkisstjórn. Sem fyrrv. ríkisstjórn hafi falið mér og samþykkt að ég gerði og gert ráð fyrir að fjár yrði aflað á fjáraukalögum. Eru það óreiðuskuldir sem fyrrv. heilbrrh. skildi eftir sig?

[22:15]

Svo segir hér hins vegar að lagt er til hvað varðar Framkvæmdasjóð aldraðra að framlag á þessum lið hækki um 209 millj. kr. vegna þess að markaðar tekjur sjóðsins af iðgjöldum, sem er viss prósenta af álagningu staðgreiðsluskatts, hafi verið vanáætlaðar í fjárlögum nokkur undanfarin ár. Og hver var það sem uppgötvaði að ríkissjóður hafði ekki skilað Framkvæmdasjóði aldraðra 209 millj. kr. sem ríkissjóður hafði innheimt af fólkinu í landinu með sköttum sem voru sérmarkaðir framkvæmdasjóðnum? Það var sá sem hér stendur. Það var vegna bréfs frá honum sem þetta var ákveðið, en hvernig er þessu fé er ráðstafað? Því er öllu ráðstafað í fjáraukalögunum til annarra hluta. Litlu broti af því til að greiða kostnað reksturs dagvistunarstofnana.

Það er því algjörlega ósatt að hér sé um að ræða einhver milljarðs króna vanskil af hálfu Alþfl., þegar Alþfl. fór frá í heilbrigðismálum. Og ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra leggi þá hér á borðið upplýsingar um það sem ganga þvert á það sem fjmrn. segir í skýringum með frv. til fjáraukalaga. Þá er rétt að hæstv. ráðherra leiðrétti kollega sinn fjmrh., sem leggur fram skýringarnar með þessum hætti. Og ég spyr enn: Eru samskiptin þannig í ríkisstjórninni að hæstv. heilbrrh. lesi ekki það sem frá fjmrn. kemur? Er það afstaða hennar, eins og kom fram í þingræðu hér fyrir nokkrum dögum, að það sem frá fjmrn. kemur falli um sjálft sig? Það voru þau orð sem hún hafði um álit fjmrn. á kostnaðaráhrifum þess að fresta gildistöku lyfjalaganna enn frekar. Þá sagði hún að það væri ekkert að marka vegna þess að það kæmi frá fjmrn. og félli um sjálft sig. Það er þá ekki þörf á því að standa í þessari löngu umræðu um fjárlög ef það er niðurstaða ráðherra Framsfl. að það sem frá fjmrn. komi falli um sjálft sig. Þá er auðvitað þýðingarlaust að ræða fjárlagafrv. frekar en annað sem verður til í þeim húsum.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram til að svara þeim áburði hæstv. ráðherra um að hún hefði tekið við milljarði í óreiðuskuldum frá Alþfl. frá því í fyrra, eins og hún sagði orðrétt.

En fyrst ég er kominn hér upp þá langar mig til að skýra þeim þingmönnum sem á mál mitt hlýða frá því að fyrir næstum því nákvæmlega fjórum árum kvaddi hæstv. núv. heilbrrh. sér hljóðs utan dagskrár til að mótmæla því sem hún kallaði sjúklingaskatta sem fyrrv. ríkisstjórn var þá að leggja á, en kallar núna þjónustugjöld eða sértekjur. Í lok ræðu sinnar sagði hún orðrétt, með leyfi forseta. ,,Ef sparnaður á að nást í heilbrigðismálum þarf að vinna faglega með fólkinu en ekki á móti fólkinu.`` Nú spyr ég: Þegar hæstv. ráðherra gerir í fjárlagafrv. tillögu um að afsláttur vegna heilbrigðiskostnaðar aldraðs fólks verði fluttur úr 67 í 70 ár, gerði hún það þá í samvinnu við Samtök aldraðra? Við hvaða aðila, við hvaða fólk í þjóðfélaginu hafði hún hið faglega samráð um þessa tillögu sem hún sagði fyrir nákvæmlega fjórum árum síðan að væri forsenda þess að nokkur árangur gæti náðst í sparnaði í heilbrigðiskerfinu? Og ég spyr enn: Við hvaða fólk hafði hæstv. heilbrrh. samráð þegar hún tók ákvörðun um að leggja til innritunargjöld á sjúkrahúsum? Hafði hún samráð við Félag hjartasjúklinga? Hafði hún samráð við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna? Hafði hún samráð við Krabbameinsfélag Íslands? Við hvaða fólk hafði hæstv. ráðherra samráð fyrst hún er þeirrar skoðunar og er búin að vera í fimm ár að það náist enginn árangur í sparnaði í heilbrigðismálum nema í faglegu samstarfi við fólkið. Þegar hún tók þá ákvörðun að leggja til að skerða elli- og örorkulífeyri með fjármagnstekjum og hvarf þar frá samkomulagi sem gert hafði verið milli fjmrn. og heilbrrn. um að það skyldi ekki gerast nema fjármagnstekjuskattur yrði jafnframt lagður á alla þegna í samfélaginu. Um það vorum við hæstv. fjmrh. sammála. Það var búið að ákveða í ríkisstjórninni að það kæmi ekki til greina öðruvísi. Þegar hún tók þá ákvörðun að fjármagnstekjuskattur skyldi lagður á gamalt fólk eða ígildi fjármagnstekjuskatts til að skerða elli- og örorkulífeyri þess án þess að fjármagnstekjuskattur yrði lagður á nokkra aðra þjóðfélagsþegna, við hvaða fólk hafði hún þá faglegt samráð? Við Öryrkjabandalagið? Við Samtök aldraðra? Við hvaða fólk, hæstv. heilbrrh., hafðir þú faglegt samráð um þetta sem þú segir sjálf að sé forsenda þess að nokkur árangur geti náðst? Þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. leggur til í fjárlagafrv. að gjaldtaka vegna glasafrjóvgunar sé tvöfölduð úr 21 millj. í 45 millj. var það gert í samráði við Tilveru? (Heilbrrh.: Þetta eru vitlausar tölur.) Nei, það eru ekki vitlausar tölur. Tekjurnar í dag eru áætlaðar 21 millj. og það er talið að þær eigi að hækka um 24 millj. Þannig að 24 plús 21 eru 45 a.m.k. samkvæmt þeim reikningi sem ég lærði. En látum liggja milli hluta hvort rétt er lagt saman eða ekki. Meginatriði málsins er við hvaða aðila hæstv. heilbrrh. hafði það faglega samráð sem er forsenda fyrir því að sparnaðartillögurnar nái árangri.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að skuldasöfnun ríkisins er orðin ógnvænleg. Ríkið og stofnanir þess skulda 136 milljarða kr. 48 af þessum milljörðum eru vegna tilrauna til að markaðssetja íslenskt lambakjöt í útlöndum. Og þá er ég að tala um útflutningsbætur, það er að vísu meira en lambakjöt því að þetta var líka á tíð niðurgreiðslna á útflutningsverði á öðrum landbúnaðarafurðum, en að áliti fjmrn. nema þessar fjárhæðir á þeim tíma sem þetta kerfi var í gildi miðað við vísitölu landsframleiðslu á núvirði á verðlagi ársins 1994 48 milljörðum. Eða rúmum einum þriðja af öllum þeim skuldum sem ríkið og ríkisstofnanir hafa safnað á þeim tíma sem eru til lengri tíma en eins árs. Þetta kostaði markaðssetningartilraunin sem ekki hefur skilað neinum árangri. Nú spyr ég hv. þm. Pétur H. Blöndal: Nú stendur til að halda þessu áfram í búvörusamningnum. Ætlar hann að samþykkja það líka? Eða telur hann að það eigi aðrar reglur að gilda um sauðkindina en mannfólkið? Ég verð að segja eins og er að það er fordæmið sem við sáum í sjónvarpinu í kvöld þegar við sáum myndir þar sem verið var að urða frá sláturhúsi úti á landi 156 skrokka af nýslátruðu kjöti sem skattborgarar hafa greitt og enginn markaður er fyrir, ekki einu sinni ofan í loðdýr. Þessu var öllu saman mokað ofan í gryfju, kveikt í og mokað yfir. (Gripið fram í: Er þetta ekki í kjördæmi þingmannsins?) Jú, þetta er í kjördæmi mínu en það er ekki betra fyrir það. (Gripið fram í: Nú?) Nei, það er ekki betra, hv. þm. Þú heldur það kannski, virðulegi þingmaður að þetta sé í lagi ef þetta er í kjördæminu þínu, að mat sem greiddur hefur verið af fé skattborgara sé mokað ofan í gryfjur og kveikt í.

Það er verið að segja og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði það áðan að menn verði að herða sultarólina. Eru menn að herða sultarólina þarna? Það er boðað í þessu fjárlagafrv. að ríkisstjórnin hafi tekið þá stefnu að aftengja allar vísitöluviðmiðanir í fjárlagafrv., þar á meðal til gamals fólks og öryrkja. En það er ekki gert í búvörusamningnum. Þar er allt verðtryggt fimm ár fram í tímann. Þannig að það er annað sem er uppi á teningnum þegar kemur að þeim samningi eða þegar kemur að þeim samningi sem gerður var um bindingu elli- og örorkulífeyrisþega við lægstu laun í landinu.

Svo kemst ég ekki hjá því, virðulegi forseti, að ljúka máli mínu með því að vitna enn í orð hæstv. núv. heilbrrh. sem eru mælt árið 1992, þann 13. apríl.

Hún segir: ,,Sú óvissa sem ríkir almennt víða í heilbrigðismálum er með þeim hætti að útilokað er að sætta sig við hana. Stofnanir í fjársvelti eiga sér aðeins eitt val, þ.e. að draga verulega úr þjónustu við skjólstæðinga sína og þetta á sér stað alls staðar. Stofnunum er að blæða út víðast hvar.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að þær tillögur sem hann stendur að í fjárlagafrv. séu til þess fallnar að stöðva það blóðstreymi eða að veita nýju lífi í rekstur þessara stofnana? Ég held að menn þurfi að hafa samband við fólk í meira mæli heldur hæstv. heilbrrh. hefur gert og standa frekar við það sem hæstv. ráðherra boðaði að hún mundi gera fyrri fjórum árum.

Mér kemur í hug í lokin gömul saga vestan af Ísafirði. Þá var það einnig stjórnmálamaður, að vísu í sveitarstjórnarmálum, sem hafði það jafnoft á orði eins og hæstv. ráðherra að það þyrfti að leita samráðs við fólkið. Það fólk sem viðkomandi leitaði samráðs við var einn maður og hann hét Einar Jóelsson. Ég held að það sé nákvæmlega eins með hæstv. heilbrrh. Þegar hæstv. ráðherra ætlaði að standa við stóru orðin um að hafa nú alltaf samráð við fólkið á faglegum grundvelli þá hafi samráðið ekki náð mikið lengra en upp í fjmrn. Og mér finnst að það samráð hafi verið ansi einhliða. Eins og ég hef áður sagt þá kannaðist ég við flestar þær tillögur sem hér eru fluttar í heilbrigðismálum, þær voru tíndar upp úr ruslafötum heilbrrn., þaðan sem þær virðast eiga afturkvæmt núna.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, og ítreka það að ég ætlaði mér ekki að taka aftur þátt í þessari umræðu. En að hlusta á hæstv. heilbrrh. í annað sinn segjast hafa tekið við milljarðs króna vanskilaskuldum í heilbrrn. frá Alþfl. frá því í fyrra eru ummæli af því tagi að það var ekki hægt að láta þau óleiðrétt.