Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 17:58:13 (482)

1995-10-19 17:58:13# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu merkilegt plagg sem er ræða hæstv. utanrrh. Þetta er fyrsta ræða sem hæstv. ráðherra flytur á ferli sínum sem utanrrh. og þess vegna er hún fróðleg vegna þess að hún leggur fram þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hyggst fylgja í utanríkismálum.

Það er hægt að segja það, herra forseti, að margt er ágætt að finna í ræðu hæstv. utanrrh. Annað er miður. Það sem mér þykir gott í þessari ræðu, og segi það sérstaklega út af orðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, eru kaflarnir sem fjalla um Atlantshafsbandalagið, en ég er líka ánægður með það hvernig hæstv. utanrrh. fjallar um Evrópska efnahagssvæðið. Það kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra að hann er býsna ánægður með þá stefnu sem var mörkuð í tíð Alþfl. í ríkisstjórn. Og hann er raunar ekki eini maðurinn og ekki fulltrúi eina flokksins sem er ánægður því á nýafstöðnum landsfundi Alþb. var lögð fram tillaga um að Alþb. vildi stefna að því að segja upp þessum samningi. Frá því er skemmst að segja að sú tillaga fékk varla umræðu þegar leið á fundinn og þar með hefur það sannast að stefnan sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson markaði í tíð sinni sem utanrrh. hefur nú náð hljómgrunni hjá öllum flokkum sem eiga sæti á hinu háa Alþingi. Það eru tíðindi og það sýnir að allt það sem við alþýðuflokksmenn sögðum um Evrópska efnahagssvæðið hefur nú, á þeim skamma tíma sem er liðinn frá því að samningurinn tók gildi, verið dæmt satt og rétt af fulltrúum allra þeirra flokka sem hér reyndu að hreyfa himin og jörð gegn samningnum. Ég sé að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hristir höfuðið, en svona er þetta nú samt.

[18:00]

Herra forseti. Það sem mér þykir e.t.v. vera lakast í þessari ræðu hæstv. utanrrh. eru þeir kaflar sem tengjast fiskveiðum Íslendinga á hafsvæðum utan efnahagslögsögunnar. Kem ég þá fyrst að Atlantshafsbandalaginu. Sá kafli sem fjallar um Atlantshafsbandalagið er þess eðlis að ég get svo að segja tekið undir hvert orð og ég er sannfærður um það, herra forseti, að ef fyrrv. formaður Alþýðubandalagsins væri staddur hér þá væri hann nauðbeygður til þess að taka líka undir hvert einasta orð. Ég sé ekki betur heldur en að það sem hér er að lesa sé nákvæmlega það sama og hann var að tala um fyrir eins og einu ári síðan og skapaði nú talsverðar umræður á þeim tíma.

Herra forseti. Ég tel að það sé rétt að Atlantshafsbandalagið hafi sýnt gildi sitt í átökunum á Balkanskaga. Ég tel líka að það sé rétt að verkefnið Samstarf í þágu friðar hafi orðið til þess að treysta stöðugleika í Mið- og Austur Evrópu. Ég tek undir það, og veit það eins og hæstv. utanrrh., að það eru mörg ríki sem telja öryggi sínu best borgið með fullri aðild að Atlantshafsbandalaginu og auðvitað eigum við að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Og þeim þjóðum sem vilja ganga til samstarfs við þær sem eru núna þegar innan Atlantshafsbandalagsins eigum við að rétta höndina.

Það er svo, herra forseti, að það er komið að því á næstu árum að meta með hvaða hætti eigi að stækka Atlantshafsbandalagið. Hæstv. utanrrh. tekur undir stefnu fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum. Hann styður markvissa en varkára stækkun Atlantshafsbandalagsins. Nú er það svo, herra forseti, að Íslendingar eru smáþjóð en þeir hafa alltaf haft styrk á alþjóðavettvangi sem er langt umfram það sem stærð okkar sem þjóðar segir til um. Við höfum reynt á alþjóðavettvangi að styðja aðrar smáþjóðir. Undir forustu Alþfl., undir forystu formanns Alþfl., hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, þá stigum við fyrsta skrefið, urðum fyrstir til þess að viðurkenna fullveldi Eystrasaltsþjóðanna. Við eigum að halda því áfram, við eigum að styðja þær eins og hægt er. Við eigum með vissum hætti aðild að frumburðarrétti þeirra sem endurnýjaðra sjálfstæðra þjóða og staðreyndin er sú að ég tel að það sé nauðsynlegt að Íslendingar taki undir viðleitni þeirra til þess að verða fullgildir meðlimir í Atlantshafsbandalaginu. Við eigum með þeim hætti að lýsa yfir þessum skoðunum okkar og reyna að vinna þessu brautargengi á þeim vettvöngum sem að við höfum stöðu til þess að tala máli þeirra á. Þar koma einkum tveir til greina, þ.e. annars vegar Atlantshafsbandalagið sjálft og hins vegar Vestur-Evrópusambandið. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh., ef hann má vera að því að hlýða á mál mitt, hvort hann telji ekki gerlegt að Íslendingar taki í ríkari mæli undir óskir Eystrasaltsþjóðanna um fulla aðild bæði að Vestur-Evrópusambandinu og NATO?

Nú er það svo að þessar þjóðir eiga í rauninni fátt sameiginlegt. Þær hafa ólíka tungu, ólíka menningu og ólíka sögu. Hvað eiga þær sameiginlegt? Landfræðilega stöðu, en líka það að þær voru allar teknar herskildi af hinum hrundu Sovétríkjum án þess að nánast nokkur einasta þjóð risi þeim upp til varnar. Það var enginn sem tók máli þeirra þá. Ég tel að þjóðir Vesturlanda beri nokkra sekt og eigi þeim nokkra skuld að gjalda.

Nú er það svo að það kemur aftur og aftur fram og í æ ríkara mæli að þessar þjóðir óttast um sitt öryggi. Þær hafa tekið upp aukið samstarf í gegnum Eystrasaltsþingið og þær hafa reynt að samræma stefnu sína í utanríkismálum og burðarásinn í því er að þær hafa óskað eftir því að verða aðilar að Atlantshafsbandalaginu og að Vestur-Evrópusambandinu. Þetta er skiljanlegt vegna þess að sagan gefur tilefni til þess. Það er vaxandi óstöðugleiki í Rússlandi og ýmsar yfirlýsingar ráðamanna þar eru ekki til þess fallnar að auka trú þessara þjóða á örugga framtíð. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að taka undir óskir þeirra um aðild að þessum tveimur samtökum. Ég held að við eigum að styðja þetta þar sem við getum og við eigum að virða það að þessar þjóðir telja að þetta sé þeim nauðsynlegt til friðar og öryggis í framtíðinni.

Herra forseti. Ég gat þess áðan að mér þætti að sá hluti ræðu utanrrh., sem fjallaði um þau mál sem tengjast veiðum utan efnahagslögsögunnar, væri sá sem væri lausustu tökum tekinn í greinargerð ráðherrans.

Ég vil segja það, herra forseti, að á síðasta kjörtímabili þá var það stór þáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum að berjast eins og hægt var gegn mengun og fyrir aukinni umhverfisvernd á alþjóðavettvangi. Mér þykir það heldur rýrt þegar það er afgreitt hér í einungis fjórum línum. Og þó ég taki undir meginefnið sem þar er þá þykir mér slæmt að sá áfangi, sem við náðum á síðasta kjörtímabili og varðaði baráttuna gegn losun þrávirkra lífrænna efna, fær ekki einu sinni eina setningu. Ég vona að það boði ekki, herra forseti, að hæstv. utanrrh. ætli með einhverjum hætti að draga úr þunganum í þeirri baráttu okkar. En hann svarar því kannski á eftir.

Herra forseti. Þeir hafa þegar orðið að umræðuefni í umræðunni um ræðu hæstv. utanrrh., samningarnir sem nú standa yfir til þess að reyna að ná sáttum um þorskveiðar okkar í Smugunni. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og reyndar einum öðrum þingmanni sem segja að það sé ekki hægt að kaupa þá samninga því verði að við afsölum okkur réttindum okkar við Svalbarða. Ég segi líka, við þurfum að athuga annað mál í tengslum við þetta. Það hefur komið fram, herra forseti, að til greina komi, samkvæmt fregnum í fjölmiðlum, að það verði sett upp einhvers konar gagnkvæmt tryggingakerfi sem felst í því að við kunnum að þurfa að hleypa öðrum þjóðum í okkar þorskstofn þegar vel árar hjá okkur. Ég vara við þessu, herra forseti. Ég tel að þetta verði okkur ekki hallkvæmt í framíðinni og ég spyr hæstv. utanrrh. hvort þetta sé í rauninni svo, hvort þessar fregnir séu sannar og ef svo er hvort hann telji þá ekki að þetta geti orðið fordæmi gagnvart þeim erfiðu samningum sem við eigum eftir líka um aðra fiskstofna?

Herra forseti. Það sem mér þykir slæmt og vantar í ræðu hæstv. utanrrh. er stefna um stjórn veiða úr íslensk-norska síldarstofninum. Það er nánast ekkert sem kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh. um það hvaða stefnu Íslendingar eiga að fylgja þar. Ég skil það mætavel. Hún hefur aldrei verið lögð fram hér á hinu háa Alþingi. Nú blasir það við, samkvæmt lausafregnum úr fjölmiðlum, að samningar kunni að vera í nánd varðandi þetta mikla deilumál. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Tilefnið er ærið. Þegar við ræddum þetta á vorþingi þá kom það fram að Íslendingar höfðu nánast látið Norðmenn skammta sér úr hnefa það sem þeir sjálfir vildu gefa okkur. Nú er það svo að við eigum ærna sögu í síldveiðum úr þessum stóra stofni. Þegar þær stóðu í hámarki veiddum við fast að helmingi alls afla úr stofninum. Það kom fram í fjölmiðlum í vor að þegar Íslendingar gengu til samninga við Norðmenn um þetta þá voru kröfur þeirra afskaplega lágar, undir 100 þús. tonnum var fullyrt í fjölmiðlum. Hvernig urðu lyktirnar? Vísindanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins taldi að það væri leyfilegt miðað við stærð stofnsins að veiða fast að milljón tonn og þegar Norðmenn höfðu ákvarðað sjálfum sér kvóta, úthlutað Rússum kvóta, þá voru eftir 250 þús. tonn og það var nákvæmlega það sem við, ásamt Færeyingum, ákváðum að taka okkur einhliða. Við nánast tókum við því sem okkur var skammtað. Þetta er auðvitað úr öllum takti við sögu okkar sem tengist veiðum úr þessum stofni og það er afskaplega mikilvægt að við stöndum fast á kröfum okkar í þessum efnum. Á sínum tíma stóð þessi stofn undir þriðjungi alls gjaldeyris sem við öfluðum, stóð undir atvinnu í mörgum byggðarlögum, ekki síst í kjördæmi hæstv. utanrrh. og það er mikilvægt að við höldum fast á þessu.

Því miður sýnist mér eins og þetta sé ekki hið eina sem við þiggjum úr hnefa þegar síldin er annars vegar. Það bárust fregnir um það í gær og í morgun að nú er búið að semja um útflutningskvóta okkar, tollfrjálsan, fyrir síldarafurðir á markaði í Evrópu. Forsaga þess máls er sú að við áttum áður hefðbundna og afskaplega mikilvæga markaði fyrir afurðir tengdum síld í Finnlandi og Svíþjóð. Nú hafa þessar tvær þjóðir gengið í Evrópusambandið. Með því verða miklar breytingar. Áður gátum við flutt síldarafurðir tollfrjálst inn í þessi lönd en þegar þau ganga inn í Evrópusambandið þá skyndilega fer kvótinn úr 0% upp í 10 til 12%. Auðvitað teljum við mikilvægt að það sé tekið tillit til þessara breyttu aðstæðna og við sem gömul viðskiptaþjóð þessara landa fáum sérstök kjör eins og jafnan er gert ráð fyrir.

Á sínum tíma þegar við veiddum mest úr þessum stofni þá vorum við að flytja á þessa markaði eitthvað í kringum 20. þús. tonn. Nú er niðurstaðan sú að við fáum 4.100 tonna kvóta. Það er allt og sumt. Viðmiðunin sem gerð er miðast við þrjú síðustu árin áður en að Finnland og Svíþjóð gengu inn. Það voru hins vegar ár sem voru afskaplega lök fyrir okkur, afskaplega slæm viðmiðunarár. Þau eru hins vegar góð viðmiðunarár fyrir Norðmenn. Og ég segi það, herra forseti, það er alveg ljóst að í framtíðinni munum við veiða miklu meira úr þessum stofni. Við munum eiga möguleika á því að skapa fjölda starfa og Framsfl. ætlaði jú að skapa 12.000 störf fram til aldamóta. Þarna er ærið tækifæri til þess. En það tækifæri var ekki tekið. Við fengum 4.100 tonn. Það er nákvæmlega það sem var á borðum í vor. Við höfum engu náð fram. 4.100 tonn, herra forseti, það er allt of lítið.

Að lokum er það eitt atriði sem mig langar að ræða hérna líka. Það kemur fram í ræðu hæstv. utanrrh. að hann vill enn á ný efla þátttöku okkar í NAMMCO og vill að Íslendingar beiti sér fyrir samvinnu um nýtingu sjávarspendýra á Norður-Atlantshafssvæðinu með því að taka mjög virkan þátt í NAMMCO.

Herra forseti. Ég held að það blási nýir vindar um hvalveiði víðs vegar um hnöttinn. Ég verð var við það þegar ég hef sjálfur sótt ráðstefnur þar sem þetta ber á góma að t.d. Bandaríkjamenn hafa breytt sinni afstöðu og eru hægt og hægt að breyta henni. Af hverju? Vegna þess að þau nýju viðhorf sem tengjast sjálfbærri þróun kalla á það að við förum í það að nýta stofna og tegundir sem þola nýtingu. Íslendingar hafa ávallt getið sér gott orð fyrir að vinna vísindalega að sínum veiðum, byggja þær á vísindalegum grunni og viðhorfin núna eru breytt. Það liggur fyrir að allar rannsóknir á hvalastofnum og sérstaklega stofnum smáhvela, benda eindregið til þess að það sé gerlegt að veiða talsvert magn af hvölum úr þessum stofnum. Ég held hins vegar að það verði aldrei að veruleika á meðan við erum að einangra okkur innan NAMMCO. Við eigum að segja okkur úr NAMMCO og við eigum að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið. Einungis þar og með þeim hætti tel ég að það sé hægt fyrir okkur að vinna málstað okkar fylgi og ná því aftur að fara að hefja nýtingu þessara stofna.