Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:37:42 (495)

1995-10-19 19:37:42# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég segi það nú bara að sú hugsun, sem kom fram hjá hv. þm. í sambandi við alþjóðamál og tengsl Íslands við umheiminn, að við eigum ekkert að hugleiða eitt né neitt í þessum efnum, mundu þýða það að við værum þá með þá stefnu að loka okkur alveg af. Hvernig væri Ísland statt ef við hefðum ekki gengið í NATO og ef við hefðum ekki tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi? Hvers konar líf væri hér á landi ef sú hugsun sem hv. þm. er fulltrúi hér fyrir hefði fengið að ráða ríkjum? (Gripið fram í.) Og hvers konar flokkur verður það þegar verður búið að sameina Alþb., Kvennalistann, Þjóðvaka og Alþfl.? (Gripið fram í.) Er búið að því? Mér heyrist það á nýjum formanni og fyrrv. formanni Alþb., að þetta sé allt saman í góðum gangi, eins og form. Alþfl. mundi vilja segja, eða er verið að blekkja þjóðina með því að þarna sé í uppsiglingu eitthvert nýtt stjórnmálaafl? En ég held að það sé einmitt gott að það sé vel upplýst í þessari umræðu hvers konar stjórnmálaafl þetta væri. (Gripið fram í.) Nei, ég neitaði öllum viðræðum um þetta mál sem formaður Framsfl. og taldi ekki ástæðu til að taka þátt í því enda veit ég hvað er langt á milli þessara flokka, ekki síst á sviði utanríkismála og ég veit hvað utanríkismál skipta miklu máli fyrir okkar þjóð. Ef menn geta ekki sameinast um þau mál, þá er náttúrulega út í hött að vera að tala um einhverja sameiningu og ég held að það væri þá best ef það væri sagt. Það er ánægjulegt að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur í reynd sagt það með frammíkalli að þessar sameiningarumræður séu bara bull, eins og einhver ágætur félagi í flokknum sagði hér í Reykjavík.