Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:47:07 (499)

1995-10-19 19:47:07# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HJök (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hrafn Jökulsson (andsvar):

Herra forseti. Sem mikill nýgræðingur í þessum virðulega sal þá verð ég bara að lýsa undrun minni á því að þegar ég ber upp spurningar til hæstv. utanrrh. þá fæ ég ekki svar við einni einustu. Ég fæ að heyra það eitt að hæstv. utanrrh. sé í félagsskap með ýmsum öðrum löndum og þau séu nú alltaf öðru hverju að ráða ráðum sínum og það sé ekki hægt að ætlast til þess að Íslendingar hafi mikið að segja á alþjóðavettvangi. En svörin, til að mynda varðandi hina fangelsuðu kúrdísku þingmenn, létu ekkert á sér kræla í máli hæstv. ráðherra.

Nú, þá verður bara þessum degi í lífi mínu að ljúka án þess að ég fái svör við þessum spurningum. Ég get svo sem ekki ætlast til þess að hæstv. ráðherra fari að rjúka upp til handa og fóta og gerast, eins og hann segir, einhver mannskynsfrelsari. En ég verð að segja að mér finnst þessi afstaða ekki bera vott um mikið sjálfstraust hjá þessum reynda og virðulega stjórnmálamanni. Ég minni hæstv. ráðherra á að þær stundir hafa komið í íslenskri utanríkispólitík þegar við höfum átt frumkvæði á alþjóðavettvangi sem munað hefur um. Mér er ljúft að rifja það upp fyrir honum við tækifæri, hafi hann verið að fylgjast með einhverju öðru þegar það átti sér stað. En ósköp gæti ég orðið stoltur af hæstv. utanrrh. ef öðru hvoru fréttist af honum á alþjóðavettvangi með drög að sjálfstæðum skoðunum sem hann þyrfti ekki alltaf að bera undir alla þessa vini sína sem sitja á sífelldum fundum og ekkert kemur út úr.

Ég vil ítreka, herra forseti, að það veldur mér náttúrulega vonbrigðum að fá engin svör við spurningum mínum.