Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:04:31 (550)

1995-10-31 15:04:31# 120. lþ. 22.5 fundur 107. mál: #A hjúskaparlög# (ellilífeyrisréttindi) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:04]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þori ekki annað en að segja nokkur orð um þetta mál þar sem flutningsmaður hefur gagnrýnt okkur kvennalistakonur fyrir að veita honum ekki meiri stuðning í þessu máli á undanförnum árum. En ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að ég á í svolitlum erfiðleikum með þetta mál. Ég skil vel þá hugsun sem býr að baki og ég veit að ef breyting af þessu tagi yrði gerð kæmi það fyrst og fremst konum til góða og ekki síst þeim hópi kvenna sem hafa verið heimavinnandi. Það sem að vefst fyrir mér í þessu máli eru einfaldlega réttindi einstaklingsins. Hver er réttur einstaklingsins? Hvenær og í hversu ríkum mæli er réttlætanlegt að telja vinnuframlag og réttindi fólks á vinnumarkaði hjúskapareign, eða sameiginlega eign hjóna þótt maður sé að horfa til elliáranna? Þetta vefst svolítið fyrir mér þótt ég skilji vissulega þá réttlætishugsjón og hugsun sem fylgir hjá flutningsmönnum.

Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir upplýsti mig um það hér áðan að einstakir lífeyrissjóðir séu farnir að vinna með þessum hætti þó þetta hafi ekki verið lögleitt. Menn hafa borið því við sem aðalröksemd gegn þessari breytingu að þetta væri ákaflega flókið í framkvæmd eins og fram kom í máli hv. flm. og kemur einnig fram í greinargerðinni. Þess eru dæmi að fólk hefur greitt í marga lífeyrissjóði. Þegar framlag hjóna er lagt saman eru að minnsta kosti tveir sjóðir á ferð og jafnvel fleiri ef bæði hafa greitt í lífeyrissjóði. En við getum svo sem blásið á svoleiðis röksemdir og auðvitað eru til lausnir á öllu slíku ef vilji er fyrir hendi. En ég held að við þurfum að skoða þetta mál rækilega og reyna að létta því oki af hv. 1. flm. að bera þetta fram hér ár eftir ár. Það er verið að vinna að endurskoðun á lífeyriskerfinu og þar hlýtur þetta að koma til skoðunar. Ég ítreka að þetta atriði með réttindi einstaklingsins á móti þeirri hugsun um sameign og samvinnu og hin sameiginlegu réttindi sem fólk er að vinna sínu heimili vefst fyrir mér. Á þessu þarf að finna einhverja lausn.