Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:13:43 (552)

1995-10-31 15:13:43# 120. lþ. 22.5 fundur 107. mál: #A hjúskaparlög# (ellilífeyrisréttindi) frv., SP
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:13]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað. Þær eru mjög athyglisverðar að mínu mati og ég tel að 1. flm. þessa frv. hafi haft áhrif með tillöguflutningi sínum í þessa veru því að ég var stödd á fundi um daginn þar sem forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna upplýsti það að þeir væru farnir að fara eftir þessu, þ.e. að skipta í ákveðnum tilvikum lífeyrisréttindum milli maka en mér skildist að það væri frekar í þeim tilvikum þar sem um væri að ræða einfalt kerfi, þ.e. þar sem alltaf hefði verið greitt í sama lífeyrissjóð. Ég tel rétt að við fáum nánari upplýsingar um hvað hefur verið framkvæmt í þessum málum og hvað stendur til hjá lífeyrissjóðunum. Það er líka rétt að það stendur til að endurskoða lífeyriskerfið. Þetta hefur verið tekið sérstaklega fyrir í hv. efh.- og viðskn. og ég tel ástæðu til að við höfum líka samráð við þá nefnd og jafnframt fjármálaráðuneytið um hvað er þar að gerast. En ég tel þetta mjög athyglisvert mál og skil vel þau sjónarmið sem hv. 1. flm. mælir sem rök í þessu máli og að sjálfsögðu mun allshn. skoða þetta mál vel og vandlega.

[15:15]

Það er líka rétt sem kom fram áðan að það hafa verið mjög skiptar skoðanir sem hafa komið fram í umsögnum en e.t.v. má ætla að þar sé að verða breyting á. Varðandi hjúskaparlögin, sem var rætt um hér áðan, er auðvitað rétt að það er tryggt jafnrétti í þeim á nánast öllum sviðum hjúskaparréttar. Í nýjum hjúskaparlögum, sem eru nr. 31/1993, er ekki gerður neinn greinarmunur á milli hjóna eins og kemur fram í 2. gr. laganna en þessi lög leystu af hendi tvenn eldri lög, þ.e. lög nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, og lög nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Í síðastnefndu lögunum var um að ræða kynjamismunun í sambandi við ábyrgð á skuldum, sbr. 26. og 28. gr. þeirra laga.

Skattalög gera heldur engan greinarmun á milli kynja. Barnabætur og barnabótaauki til einstæðra foreldra er t.d. alveg óháður því hvort um móður eða föður er að ræða.

Varðandi barnalög þá var það þannig að forsjá barns varð að vera óskipt hjá öðru foreldri en hins vegar samkvæmt núgildandi barnalögum, sem eru frá 1992, þá geta foreldrar samið um sameiginlega forsjá og þar er því um aukið jafnrétti að ræða. Það er helst kannski í lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð þar sem er gerður munur varðandi fæðingarstyrk og fæðingarorlof.

Lífeyrisréttindin eru almennt ekki kyngreind lengur. Það var þannig hér áður fyrr en á síðustu árum hafa nánast allir sjóðirnir fært sig frá ekknalífeyri yfir í makalífeyri. Það hefur tíðkast víða í Evrópu að konum sé greiddur lægri lífeyrir en körlum á þeim grundvelli að dánarlíkur karla séu hærri. Jafnframt hefur réttur þeirra þar, sem vinna hálft starf eða minna, verið lítill sem enginn en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hefur Evrópusambandið hins vegar blásið til orrustu gegn þessari stöðu mála þannig að það er ljóst að unnið er að jafnrétti á sem flestum sviðum.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þessar hugleiðingar koma fram, en ítreka það að að sjálfsögðu mun allshn. skoða þetta mál vel og vandlega.