Úrræði gagnvart síbrotamönnum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:26:56 (583)

1995-11-01 14:26:56# 120. lþ. 23.5 fundur 53. mál: #A úrræði gagnvart síbrotamönnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:26]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í íslenskum lögum kemur hugtakið síbrotamaður hvergi fyrir. En almenn hegningarlög og raunar einnig sum sérrefsilög hafa að geyma fyrirmæli um auknar refsingar ef um ítrekuð brot er að ræða auk þess sem heimild er fyrir sérstakri refsiþyngingu þegar um margítrekuð auðgunarbrot er að ræða. Þá er í 67. gr. almennra hegningarlaga sérstök heimild til að beita öryggisráðstöfunum gagnvart mönnum sem vegna slæms andlegs ástands eða undanfarandi breyttni eru líklegir til að fremja afbrot af vana eða í atvinnuskyni og eru því hættulegir umhverfi sínu. Löggjöf er þannig ekki margorð um síbrotamenn og úrræði gagnvart þeim. Á hinn bóginn gerir réttarvörslukerfið það sem í þess valdi stendur til að stemma stigu við brotastarfsemi þeirra einstaklinga sem gera það að vana að fremja brot eða beinlínis hafa það að atvinnu sinni.

Þeir sem starfað hafa innan lögreglu þekkja að á hverjum tíma eru ákveðnir brotamenn mjög virkir og koma oft við sögu lögreglu og dómstóla á stuttum tíma. Jafnvel örfáir þessara manna bera þannig ábyrgð á stórum hluta þeirra brota sem framin eru. Það er einnig þekkt staðreynd að fjöldi afbrota, þá sérstaklega fjöldi einstakra tegunda brota, gengur í bylgjum. Stöðugt er unnið að því af hálfu lögregluyfirvalda að bæta aðferðir í baráttunni við brotamenn og finna nýjar leiðir. Í þessu samhengi verður að líta á aðgerðir réttarvörslukerfisins alls sem eina heild sem hefst hjá lögreglu, heldur áfram hjá ákæruvaldi og dómstólum og lýkur í fangelsiskerfinu. Á öllum stigum á þessum ferli hefur verið unnið að úrbótum sem m.a. stuðla að því að stemma stigu við brotastarfsemi síbrotamanna.

Eftir að breytingin var gerð á dómstólakerfinu árið 1992 við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði taka sakamál nú mun styttri tíma en fyrr og má segja að gangur þeirra mála sé nú í mjög góðu horfi. En vegna mikils annríkis lögreglu og ákæruvalds verður í sumum tilvikum of langur dráttur á rannsókn afbrota og útgáfu ákæru. Af hálfu Rannsóknarlögreglu ríkisins hefur hins vegar verið lögð sérstök áhersla á rannsóknir brota þar sem vanaafbrotamenn koma við sögu. Á fundi sem ég hélt með ríkissaksóknara, rannsóknarlögreglustjóra og lögreglustjórum á höfuðborgarsvæðinu 30. ágúst sl., var rætt sérstaklega um leiðir til að stemma stigu við vaxandi afbrotum í þjóðfélaginu. Sérstaklega var þar rætt um leiðir til að flýta afgreiðslu mála hjá lögreglu og ákræuvaldi.

Á vegum dómsmrn. er nú starfandi nefnd sem vinnur að endurskoðun á frv. til lögreglulaga. Eitt af meginviðfangsefnum þeirrar nefndar er að setja reglur sem tryggt geti skilvirka löggæslu og rannsókn brotamála. Þá er í réttarfarsnefnd unnið að heildarendurskoðun á lögum um meðferð opinberra mála þar á meðal kaflanum um ákæruvald. Reikna má með að í frv. þeim sem þessar nefndir munu skila af sér komi fram nýmæli sem ætlað er að stuðla að einfaldari og skilvirkari ferli brotamála frá lögreglu til dómstóla.