Hvalveiðar

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:01:46 (597)

1995-11-01 15:01:46# 120. lþ. 23.8 fundur 22. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:01]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hæstv. ráðherra ætli að flytja þáltill. sem stefni að því að við hefjum hvalveiðar að nýju. Það er auðvitað algerlega óþolandi að vera í þeirri stöðu sem við höfum verið undanfarin ár að hafa ekki heimild til þess að nýta þessi sjávarspendýr vegna þess að öll rök hníga að því að við gerum það.

Sannleikurinn er sá að það er orðið fullreynt innan Alþjóðahvalveiðiráðsins að við munum ná nokkrum einasta árangri þar. Það skiptir ekki nokkru máli hvað við segjum eða hverju við höldum fram eða hvernig við rökstyðjum okkar mál. Þar innan borðs eru einfaldlega aðilar sem hlusta ekki á rök og taka ekki rökum.

Ég vil benda á það að pólitískar aðstæður í Bandaríkjunum hafa verið að breytast mjög mikið og þau öfl sem áður hömuðust mest gegn hvalveiðum á grundvelli misskilinna umhverfissjónarmiða, hafa verið að láta undan síga. Bent hefur verið á það og sýnt fram á að pólitískar aðstæður í Bandaríkjunum, sem mjög miklu máli skipta í þessu sambandi, eru miklu hagstæðari okkur núna heldur en þær hafa verið áður. Ég tel þess vegna að við eigum ekki að bíða lengi eftir að þáltill. er komin fram að taka afstöðu til málsins. Umræðurnar hafa þegar farið fram. Upplýsingarnar liggja fyrir. Við eigum ekki að tvínóna en stefna að því að hefja þessar veiðar strax á næsta ári.