Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:19:27 (605)

1995-11-01 15:19:27# 120. lþ. 23.9 fundur 81. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:19]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að hreyfa þessu máli hér á Alþingi. Menn voru nokkuð vantrúaðir þegar það heyrðist í fréttum fyrir nokkrum mánuðum að Japanir væru að veiða túnfisk hér suður af landinu. Margir brostu í kampinn og töldu þetta einhverja vitlausustu frétt sem lengi hefði heyrst. En það virðist nú samt svo að Japanir sæki í vaxandi mæli á þessar slóðir því undanfarnar vikur hafa yfirleitt verið eitt til tvö japönsk veiðiskip hér í Reykjavíkurhöfn. Og þessi sókn Japananna í túnfiskveiðar suður af landinu bendir auðvitað til þess að árangur þeirra af veiðunum sé allgóður. Það er því að mínu áliti full ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að rannsaka möguleika á þessum veiðum. Þarna er um mjög verðmætan fisk að ræða og kannski gætu veiðar á honum gefið íslenskri útgerð nýja möguleika.