Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:43:13 (632)

1995-11-02 12:43:13# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:43]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, skuli hafa tekið jákvætt almennt í frv. En þó fannst mér samt gæta óhóflegrar svartsýni og að óþörfu. Í fyrsta lagi varðandi það að binda námsbrautir í lög. Eðlilegt er að í lögum sé getið á um hvaða námsbrautir eru í framhaldsskóla. Það er ekki verið að tala um einstakar stofnanir þar. Í öðru lagi er ekki alveg rétt og fullmikil svartsýni að tala um lítið atvinnulýðræði. Ég bendi í fyrsta lagi á fræðslumiðstöðvar skv. 35. gr. með skóla og atvinnulífi. Ég bendi í öðru lagi á starfsgreinaráð með fulltrúum atvinnulífs og í þriðja lagi á ráðgjafanefndir sem einstakir skólar geta komið sér upp með fulltrúum atvinnulífsins til að styrkja einstakar námsbrautir. Þetta er atvinnulýðræði að mínu mati.

Inntökuskilyrði eru til í dag, þau eru til í framhaldsskólunum í dag. Það eru framhaldsskólar sem velja nemendur inn þannig að það er ekki um neina nýjung að ræða og það er að auki eðlilegt. Við verðum að skoða þetta í víðara samhengi. Við erum að tala um nýjar námsbrautir sem munu koma upp. Ég bendi sjálfur á af eigin reynslu hafandi verið skólameistari þar sem var flugliðabraut, námsbraut fyrir verðandi atvinnuflugmenn. Þar voru inntökuskilyrði að kröfu atvinnulífsins ekki bara stúdentspróf heldur að auki einkaflugmannspróf og þar að auki sérstök gerð stúdentsprófs. Atvinnulífið hlýtur að hafa sitt að segja um þetta.

Rétt að lokum, herra forseti, ég held að það sé ekki mjög skólamálaumræðu til framdráttar að fara í svona leikfimi, ég tel að það hafi frekar verið til gamans hjá hv. þm. að fara að skilgreina 17+1 eftir einhverjum pólitískum línum og tala svo um það sem hina stóru synd að nú hafi framsóknarmenn skrifað undir með krötum og sjálfstæðismönnum, það vantar aðeins einn af hinum hefðbundnu fjórflokkum, þ.e. jólasvein einn og átta úr Alþb. en efnislega er þetta ekki skólamálaumræðunni mjög til framdráttar.