Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:16:56 (659)

1995-11-02 15:16:56# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér er hreyft merku máli. En eins og fram kom í ræðu síðasta hv. ræðumanns, vill oft verða misbrestur á því að unnt sé að hrinda í framkvæmd þeim ályktunum sem Alþingi gerir um málefni sem þingmenn eru sammála um. Þegar til þess kemur að hrinda þessum góðu áformum í framkvæmd reynist það oft örðugra en menn ætla þegar þeir standa hér og flytja ræður fyrir góðum málum.

Hér er mælst til þess að Alþingi feli ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna. Og nefndin vinni í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands að því að efla íþróttir stúlkna og kvenna og leitist við að koma í veg fyrir eða minnka hið mikla brotthvarf stúlkna úr íþróttum. Þá skoði nefndin sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um íþróttir stúlkna og kvenna, hvaða fjármagn sé veitt til stúlkna- og kvennaíþrótta, skiptingu kynjanna í forustu íþróttahreyfingarinnar og aðra þá þætti sem geta haft áhrif á stöðu stúlkna- og kvennaíþrótta. M.a. verði litið til þess sem gert hefur verið erlendis í átt til umbóta í þessum efnum.

Ég verð að segja að þegar ég les þessa ályktun þá finnst mér varðandi síðari hlutann, um að skoða umfjöllun fjölmiðla, skoða hvaða fjármagn er veitt, skoða hvernig skiptingu kynjanna er háttað í forustu íþróttahreyfingarinnar og aðra slíka þætti, að þá þurfi kannski ekki að setja niður sérstaka nefnd. Þetta ætti að vera tiltækt og unnt að rannsaka það án þess að nefnd geri það í sjálfu sér. En hitt, að móta stefnu í íþróttum stúlkna og kvenna, er verkefni sem manni finnst eðlilegt að nefnd komi að og þá í samráði við þá aðila sem þarna er um rætt. Raunar má velta því fyrir sér hvort Alþingi þurfi að álykta um mál af þessu tagi. Það ætti að vera á verksviði íþróttahreyfingarinnar að sjá um að sinna þeim með þeim hætti að Alþingi þyrfti ekki að láta þau til sín taka með sérstakri ályktun og virðulegir þingmenn úr öllum flokkum að flytja tillögur um það efni. Nauðsynin er fyrir hendi. Það er ljóst að að þessum málum er ekki staðið með þeim hætti sem viðunandi er talið og vonandi eru innan íþróttahreyfingarinnar einnig jafnáhugasamar konur um þessi mál eins og hér á hinu háa Alþingi. Og vonandi er þetta mál einnig tekið til umræðu á íþróttaþingum þar sem menn koma til að ræða saman um málefni íþróttanna.

Ég komst ekki til þess í umræðunum um síðasta mál sem hér var á dagskrá að svara öllum þeim fyrirspurnum eða athugasemdum sem til umræðu komu. En eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir minnti á var réttilega vakið máls á því í umræðunum af hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að líkamsrækt væri ekki gert hátt undir höfði í frv. um framhaldsskóla né heldur í grg. með því frv. Og ég er sammála því að það á að leggja ríkari áherslu á líkamsrækt þegar rætt er um skólamál og að þar sé vettvangur fyrir ríkisvaldið til að koma því til leiðar og stuðla að því að íþróttir og líkamsrækt séu stunduð með þeim hætti sem vera ber og að bæði kynin taki þátt í þeim með þeim hætti sem verðugt er. Að á þeim vettvangi geti ríkið sérstaklega látið að sér kveða og borið ábyrgð en í hinu frjálsa íþróttastarfi séu það frekar íþróttahreyfingin, íþróttasambönd eða ungmennafélög og aðrir aðilar sem eigi að bera ábyrgð og beri þeim að taka tillit til þessarar ályktunar. Þannig skorast ég ekki undan því, verði þessi ályktun samþykkt, að stuðla að því að nefnd verði sett á laggirnar en stefnumótunin og stefnuframkvæmdin hlýtur að verulegu leyti að vera í höndum annarra en ríkisins.

Ef við viljum hafa hér frjálsa íþróttahreyfingu sem starfar á eigin forsendum þá er það ekki endilega ríkisins að mæla fyrir um það hvernig þar er starfað. Hún á að starfa eftir þeim reglum sem hún setur sér sjálf. En að sjálfsögðu ber henni eins og öðrum að taka mið af jafnrétti og því viðhorfi sem kemur fram og endurspeglast í þessari ályktun. Ég er líka þeirrar skoðunar, sem ég hef látið koma fram hér af öðru tilefni, að afskipti af umfjöllun fjölmiðla um íþróttir eða önnur mál eru mjög hæpin af hálfu Alþingis og ég mun ekki beita mér fyrir því sérstaklega í starfi mínu sem menntmrh, að hlutað sé til um það hvernig ríkisfjölmiðlar taka á einstökum málefnum, hvort heldur íþróttum eða öðru, þó að sjálfsögðu verði að gæta þess að þar sé starfað samkvæmt lögum og reglum. En mér finnst að það eigi að fara mjög varlega á þessu sviði. Ég vildi láta þessi sjónarmið koma fram en einnig tel ég mjög mikilvægt að hv. menntmn. velti því fyrir sér hvað felst í hugtakinu ,,íþróttir`` í þessari tillögu til þingsályktunar. Ég heyrði það að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir talaði um íþróttir og bætti síðan jafnframt við líkamsrækt. Erum við að tala um keppnisíþróttir, erum við að tala um leikfimi eða erum við að tala um líkamsrækt almennt, að búa fólk undir það og kenna því t.d. í skólunum þá tækni sem nýtist allt lífið til að rækta líkama sinn og taka þátt í vernd heilsunnar og forvörnum á þeim forsendum? Eða erum við að tala um stefnumótun í íþróttum sem lýtur að því að konur séu virkari í keppnisíþróttum eða að þær séu meira áberandi í fjölmiðlum af því að þær taki þátt í keppnisíþróttum? Eða erum við að tala um líkamsrækt almennt og þátttöku kvenna á því sviði? Mér finnst að það væri æskilegt að hv. menntmn. fjallaði um þetta og það væri greinilegri leiðsögn sem tilvonandi nefnd fengi um hvað átt væri þarna við í raun og veru. Ég tek undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að hugtakið líkamsrækt er að ýmsu leyti víðtækara hugtak heldur en hugtakið íþróttir í þessu sambandi. Sérstaklega finnst mér að leggja beri áherslu á líkamsrækt í skólastarfi og að íþróttir falli þar undir. Ef menn eru að tala um það þá finnst mér að það þurfi að koma fram í þáltill. og mundi óska eftir því að hv. menntmn. skilgreindi þetta þannig að leiðsögnin fyrir tilvonandi nefnd verði skýrari, verði tillagan samþykkt.