Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:27:18 (662)

1995-11-02 15:27:18# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:27]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því eins og hv. ræðumaður að hugtakið skólaíþróttir er til hér á landi. Það er um það sem þessi tillaga fjallar. Hún fjallar um íþróttir og það sem ég var að spyrja um, og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir er líka að velta fyrir sér, er hvað felst í þessu hugtaki í tillögunni. Það er mjög mikilvægt að það fari ekkert á milli mála um hvað er verið að ræða. Sé verið að fjalla þarna um það að konur í fjölmiðlastörfum komi oftar fram í fjölmiðlum, þá finnst mér að það sé ekki málefni sem Alþingi eigi að skipta sér af. Vonandi hlusta forstöðumenn Ríkisútvarpsins á umræður sem hér fara fram, en að koma á reglum um slíkt með fyrirmælum frá Alþingi eða ráðuneytum finnst mér alveg út í hött og of mikil afskipti af fjölmiðlum þótt í eigu ríkisins séu.