Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:36:57 (668)

1995-11-02 15:36:57# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., Flm. BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:36]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá góðu og faglegu umræðu sem hér hefur átt sér stað en í henni tel ég að fram hafi komið allflestir þær þættir sem skipta máli í umfjöllun sem þessari. Brighton-ráðstefnunni hafa verið gerð góð skil, þáttur fjölmiðla og áhrif þeirra á íþróttaiðkun stúlkna hefur verið ræddur, gildi íþrótta í forvörnum gegn vímuefnum, komið hefur verið inn á nauðsyn á bættri íþróttakennslu og nauðsyn á samstarfi við íþróttahreyfinguna og drepið hefur verið á því sem hefur verið að gerast þar í þessum málum.

Varðandi athugasemdir hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar er síðari hluta tillögunnar fyrst og fremst ætlað að ítreka að nefndin hafi þær kannanir sem fyrir liggja um þessi efni til hliðsjónar við stefnumótunina og hún hafi það líka til hliðsjónar sem gert hefur verið erlendis og hefur orðið til þess að efla íþróttaiðkun stúlkna og kvenna.

Íþróttahreyfingin ber mikla ábyrgð og sú ábyrgð fer sívaxandi í þessum málum. Hún hefur með höndum mikið uppeldisstarf og þá er ég fyrst og fremst að tala um yngri flokkana og á hátíðarstundum er vitnað til þess mikilvæga hlutverks sem hún rækir. Íþróttafélögin sinna þessari ábyrgð flest mjög vel þrátt fyrir bágan fjárhag sumra þeirra og ég tel á engan hátt óeðlilegt að stjórnvöld, Alþingi eða aðrir, hafi einhver afskipti af því hvernig þetta hlutverk er innt af hendi. Íþróttahreyfingin fær eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi fé á fjárlögum sem ég er alls ekki að telja eftir þar sem hlutverki hennar fylgir mjög mikil ábyrgð. En eins og hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson nefndi hér áðan hafa þessi mál líka verið til skoðunar í íþróttahreyfingunni og fólk hefur af þessu áhyggjur þar og þess vegna er lögð svo mikil áhersla á samstarf við íþróttahreyfinguna í tillögunni og ég þykist vita að íþróttahreyfingin sem slík mundi ekki hafna liðsinni stjórnvalda í þessum efnum.

Ég tel hreinlega mikla ástæðu til að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla og þeirri skoðanamótun sem þar fer fram og ég tel ekki óeðlilegt að Alþingi hafi einhverja skoðun á því hvernig Ríkissjónvarpið rækir þær skyldur og þá ábyrgð sem því eru faldar. Ég verð hreinlega að segja að mér þykja athugasemdir hæstv. ráðherra Björns Bjarnasonar vera nánast útúrsnúningar á efni tillögunnar því að hvað segir tillagan um þetta efni: ,,Þá skoði nefndin sérstaklega umfjöllun fjölmiðla um íþróttir stúlkna og kvenna.`` Það er ekkert verið að tala um neitt annað en þetta sé haft í huga og nefndin geti mögulega haft á því einhverjar skoðanir. Það er ekki verið að tala um beina íhlutun Alþingis eða stjórnvalda í því hvernig tímanum er varið í ríkisfjölmiðlunum. Þá vil ég ekki meina að verið sé að tala um að stjórna dagskrám fjölmiðla héðan, mér finnst það vera hreinir og klárir útúrsnúningar.

Hæstv. ráðherra nefndi prósentustig í útsendingum hjá RÚV og vil ég bara vísa til skýrslu Ríkisendurskoðunar um stefnumótun hjá Ríkisútvarpinu og ríkissjónvarpinu þar sem er einmitt komið inn á það að ríkisfjölmiðillinn eigi að hafa stefnu í því hversu miklu hlutfalli er varið í umfjöllun um hvern þátt eða hvern og einn málaflokk.

Varðandi hugtakanotkunina af því að það hefur komið til umfjöllunar að við tölum um íþróttir frekar en líkamsrækt. Í mínum huga þýða íþróttir bæði keppnisíþróttir og aðrar íþróttir og mér finnst það liggja alveg ljóst fyrir hvað verið er að tala um. Ég hef ekkert á móti hugtakinu líkamsrækt, langt í frá. Það má vel vera að það dekki þetta betur en ég held að öllum sé ljóst hvað verið er að tala um, það er alla vega ekki verið að tala sérstaklega um keppnisíþróttir vegna þess að þá hefði það verið tekið fram. En enn og aftur vil þakka fyrir góða umfjöllun um þetta efni.