Vörugjald af olíu

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 16:28:24 (739)

1995-11-06 16:28:24# 120. lþ. 28.5 fundur 111. mál: #A vörugjald af olíu# (frestun gildistöku) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[16:28]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þetta litla mál snýst um að fresta gildistöku nýsettra laga. Það er sami fjmrh. sem biður nú um frestun og áður flutti málið. Það er skammt um liðið frá því málið var flutt. Málið fór í gegnum þing í náinni samvinnu við þá sem sátu í efh.- og viðskn. og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé að mörgu leyti harmsefni hvernig að málinu hafi verið staðið. Hann notar hugtakið ,,lagahringl``. Fátt er nú verra af mörgu vondu heldur en hringlandaháttur um löggjöf einkum vegna þess að löggjöfin hefur fyrst og fremst áhrif á aðgerðir einkaaðila sem við hana eiga að búa, ákvarðanir, fjárfestingar o.s.frv. Það er ástæða til að nefna þetta sem dæmi um slíkt.

[16:30]

Við lestur greinargerðar vaknar eiginlega upp önnur spurning: Er það virkilega svo að þær tillögur sem lögin frá því í febrúar byggðu á hafi í reynd alls ekki verið með góðu móti framkvæmanlegar? Hér er sagt: Það bárust upplýsingar frá Danmörku um miðjan september um litunarmálið, sem hafa breytt forsendum. Menn eru sennilega búnir að ræða þetta mál á annan áratug og gera að því margar atrennur í fjmrn. og víðar. Ævinlega hefur valið staðið á milli annars vegar litunaraðferðar eða endurgreiðsluaðferðar. Þessi endurgreiðsluaðferð er svo gömul og svo oft hefur verið um hana fjallað að allir vita að hún hafi verið neyðarbrauð. En grg. frumvarpshöfunda nú er raunverulega á þá leið að endurgreiðsluleiðin, sem var ákveðin að frumkvæði fjmrh. og með samþykki efh.- og viðskn. og þingmanna, á sl. vori hafi raunverulega aldrei verið framkvæmanleg. Hér eru tíunduð upp svo veigamikil rök um galla á henni að til þess að endurgreiðslukerfið geti gengið á fullnægjandi hátt þurfi að byggja á mikilli skráningarvinnu hjá aðilum, þeim sem ekki eiga að bera gjaldið. Bæði vegna olíunotkunar og einnig við verkbókhald vegna þess að sami aðili getur stundum verið gjaldskyldur og stundum gjaldfrjáls.

Í annan stað þurfum við að ráða fólk til bókhaldseftirlits og til þess að safna stoðupplýsingum til nota við eftirlitið. Sérstakt kerfi, nýráðningar í kringum það.

Í þriðja lagi væri skattyfirvöldum afar mikil fyrirhöfn að sannreyna olíueyðslu ökutækja jafnt sem vinnuvéla vegna þess að neyslan er háð því hvers konar verkefni og aðstæður unnið er við. Menn geta rétt ímyndað sér hvers konar eftirlitskerfi þurfi við það.

Í fjórða lagi mun ávallt verða til staðar mikil óvissa um olíueyðslu sem veikir möguleika skattyfirvalda til að sýna fram á misnotkun. Hér er eins og andstæðingur þeirrar aðferðar sem hæstv. fjmrh. mælti með í vor, þ.e. sami aðilinn tíundi öll þau rök um að það kerfi sem mælt var með í vor sé óframkvæmanlegt í haust. Ekki þarf að vitna í vonir manna um nýjar upplýsingar frá Danmörku í því efni. Spurningin er einfaldlega þessi: Lágu þessi rök fyrir í febrúar? Ég beini því t.d. til hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem átti sæti í efh.- og viðskn. á sl. kjörtímabili ef ég man rétt. Í umfjöllun málsins í smáatriðum þess og framkvæmdatriði, komu þá fulltrúar fjmrn. fram og tíunduðu öll þessi rök um það að kerfið væri óframkvæmanlegt? Hvernig stóð á því að menn sannfærast um það í febrúar eða mars að þetta væri að vísu ekki gott en framkvæmanlegt? Voru það ekki sömu embættismennirnir og hafa sennilega skrifað textann í grg. um að þetta sé allt saman tóm vitleysa? Eða er það svo að embættismenn í fjmrn. hafi skipt um skoðun og þá er ég ekki að tala um í ljósi einhverra nýrra upplýsinga heldur skipt um skoðun á því að endurgreiðslukerfi sé raunverulega ekki mönnum bjóðandi og ekki framkvæmanlegt? Þetta ætti að verða mönnum eitthvað umhugsunarefni um skattahringl, um löggjafarhringl. Skárra hefði verið að hreyfa málinu þá alls ekkert á sl. vori fremur en að ætla að leysa gamalt vandræðamál á grundvelli tillagna um endurgreiðslu sem framkvæmdaaðilinn hefði síðan enga trú á að væri framkvæmanleg.