Lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra

Mánudaginn 06. nóvember 1995, kl. 17:05:59 (745)

1995-11-06 17:05:59# 120. lþ. 28.7 fundur 79. mál: #A lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur


[17:05]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram hér varðandi lífeyrissjóðsmál og þá tillögu sem hér er til umfjöllunar og ég er meðflm. að ásamt hv. þm. Pétri Blöndal, að ég tengi þetta kannski ekki með sama hætti og síðasti ræðumaður, hv. þm. Árni Mathiesen, gerði vegna þess að ég tel að það séu nokkur atriði sem betur þarf að gefa gaum að áður en aðlögun að frjálsum lífeyrissjóðum verður endanleg. Það eru þá einkum og sér í lagi þær örorkubætur sem lífeyrissjóðirnir standa nú að. Ég nefni t.d. Lífeyrissjóð sjómanna. 60% þess fjár sem fer nú út úr sjóðnum mánaðarlega, er vegna örorkugreiðslna. Þær eru það miklar hjá þessum lífeyrissjóðum að það þarf að finna flöt á því máli og kannski eru örorkugreiðslurnar ein ástæða þess hve lífeyrissjóðirnir stóðu illa gagnvart skuldbindingum sínum um tíma. Ég veit að lífeyrissjóðir Dagsbrúnar, Framsóknar og fiskverkunarfólks hafa almennt staðið mjög illa vegna þessara ákvæða um örorkugreiðslur. Hins vegar er mér alveg ljóst að með því að finna flöt á því máli hvað áhrærir örorkuna er að sjálfsögðu ekki mikill vandi að gefa mönnum kost á að greiða í þá lífeyrissjóði sem þeir telja að ávaxti framlag þeirra sem best.

Þótt ég sé vissulega enginn talsmaður forsjárhyggju, þá er það nú samt svo að maður rekur sig æ ofan æ á það að ungir menn sem hafa lent í slysi og síðan örorku þakka þó fyrir að þeir skyldu hafa verið skikkaðir til þess að greiða í þessa lífeyrissjóði einmitt vegna örorkuþáttarins því að þeir hefðu kannski ekkert hugað að því sjálfir. Og það á við um stærstan fjölda þeirra sem eru félagar í lífeyrissjóðunum.