Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 13:57:59 (752)

1995-11-07 13:57:59# 120. lþ. 29.10 fundur 118. mál: #A sveitarstjórnarlög# (Sléttuhreppur) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[13:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 8 frá 1986, með síðari breytingum. Þetta frv. er á þskj. 130. Í frv. er gert ráð fyrir að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu skuli sameinaður Ísafjarðarkaupstað.

Sléttuhreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu er eina sveitarfélagið á Íslandi sem er í eyði, þ.e. þar eru engir íbúar. Sléttuhreppur fór í eyði á sjötta áratugnum eins og Grunnavíkurhreppur en Grunnavíkurhreppur var sameinaður Snæfjallahreppi árið 1963 skv. heimild í þágildandi sveitarstjórnarlögum, nr. 58 frá 1961.

Í Sléttuhreppi er friðland og svæðið á náttúruminjaskrá. Og einnig eru þar hús sem að notuð eru sem sumarbústaðir. Jafnframt hefur komið fram hjá embætti skipulagsstjóra ríkisins að nokkrir landeigendur í Sléttuhreppi hyggja á byggingu fleiri sumarbústaða. Enginn íbúi er í Sléttuhreppi og þar af leiðandi engin sveitarstjórn. Af þeim sökum hafa skapast ýmiss vandamál sem varðar stjórnsýslulega meðferð mála á svæðinu m.a. hjá Skipulagi ríkisins og umhvrn. varðandi umsóknir um byggingarleyfi.

Í gildandi sveitarstjórnarlögum er ekki gert ráð fyrir úrræðum varðandi sameiningu sveitarfélags við annað eða önnur sveitarfélög ef sveitarfélag hefur enga íbúa. Af þeim sökum hefur félmrn. ekki haft augljósa lagaheimildir til þess að leysa framangreind mál eftir venjulegu sameiningarferli samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Nú er unnið að sameiningu Ísafjarðarkaupstaðar, Þingeyrarhrepps, Mosvallahrepps, Mýrarhrepps, Flateyrarhrepps og Suðureyrarhrepps. Samkvæmt upplýsingum frá heimamönnum eru miklar líkur á að samkomulag náist um sameiningu þessara sveitarfélaga í kjölfar þeirra stórfelldu samgöngubóta sem fyrirsjáanlegar eru með tilkomu jarðganganna.

Á árinu 1994 var gengið frá sameiningu Snæfjallahrepps við Ísafjarðarkaupstað en fyrir sameininguna voru aðeins þrír bæir í byggð í Snæfjallahreppi. Var sú sameining staðfest m.a. vegna þess að íbúarnir óskuðu eindregið eftir henni. Vegna sameiningar Snæfjallahrepps við Ísafjarðarkaupstað eru Ísafjarðarkaupstaður og Sléttuhreppur samliggjandi og allt bendir til þess að í Sléttuhreppi og fyrrum Snæfjallahreppi verði í framtíðinni mjög vinsælt útivistar- og ferðamannasvæði. Mjög mikilvægt er að þetta svæði tengist stjórnskipulega við Ísafjarðarkaupstað þannig að tryggt sé að við nýtingu þess verði hafðir í huga sameiginlegir hagsmunir byggðanna á norðanverðum Vestfjörðum.

Til upplýsingar skal þess getið að nú liggja fyrir tillögur hjá Skipulagi ríkisins um stefnumörkun í skipulags- og byggingarmálum Sléttuhrepps og fyrrum Grunnavíkur- og Snæfjallahreppa 1995--2015.

[14:00]

Í 1. gr. frv., herra forseti, er kveðið á um að Sléttuhreppur skuli sameinaður Ísafjarðarkaupstað. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar hefur lýst yfir stuðningi við þá tillögu að sameina þessi tvö sveitarfélög. Landeigendafélag Sléttu- og Grunnavíkurhrepps hefur einnig fjallað um málið. Á aðalfundi félagsins sl. vor var samþykkt með tveim þriðju atkvæða að styðja sameiningu sveitarfélaganna og að veita stjórn félagsins umboð til að ganga til viðræðna við bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar um málefni svæðisins. Gert er ráð fyrir að félmrn. auglýsi sameininguna í samræmi við ákvæði 112. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ég hef rakið þau skref sem þarf til að sameina Sléttuhrepp og Ísafjarðarkaupstað. Eins og fyrr segir er nauðsynlegt að tryggja að tiltekin sveitarstjórn fari með stjórnsýslulegt vald á svæðinu og er því lagt til að sameining fari fram með þessum hætti.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, geri ég tillögu um að þetta mál verði sent til skoðunar í hv. félmn.