Rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 15:39:56 (770)

1995-11-07 15:39:56# 120. lþ. 29.13 fundur 109. mál: #A rannsókn á launa- og starfskjörum landsmanna# þál., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[15:39]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta hv. þm. Ögmund Jónasson sem er sífellt að rifja upp þá stöðu sem ég gegndi. Eins og ég segi stundum þá stóð ég eina vertíð í samningamálum sem formaður samninganefndar ríkisins. Ég mótaði ekki þá launastefnu, það var launastefna þáv. ríkisstjórnar. En ég ætla að segja við hv. þm. að ég veit ekki til þess að þeir þættir sem ég er að lýsa hér í uppstokkun séu launastefna þessarar ríkisstjórnar og þeir voru það ekki á þeim tíma þegar ég var formaður samninganefndar ríkisins. Ég hef ekki orðið var við mikla launastefnu af hálfu núv. ríkisstjórnar eða hæstv. fjmrh. Og sú umgjörð sem var í kjarasamningaviðræðum okkar hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrir nokkrum árum er í sjálfu sér öllum ljós. Það var umgjörð þjóðarsáttarinnar sem ég lýsti áðan og það er satt að segja dálítið ómerkilegt þegar hv. þm. ræðir um mig í þessu samhengi eins og hann gerði áðan.

Það er ekki tími til við þessa umræðu í andsvörum að fara nákvæmlega yfir það. Ég get hins vegar sagt bæði hv. þm. og þingheimi að þeir kjarasamningar sem ég stóð að og hafði forgöngu um sem formaður samninganefndar ríkisins voru niðurstaða í samningum sem voru samkomulag milli aðila og það eru þá alltaf góðir kjarasamningar. Ég dró skýrt fram í minni ræðu að hér eru breyttar aðstæður frá því að við byrjuðum með þjóðarsáttarsamningana hvort sem við tökum árið 1990, 1992 eða 1993. Aðstæður hafa breyst frá þeim tíma þegar m.a. ég var virkur þátttakandi í þessum kjarasamningsleik. Það dró ég mjög skýrt fram í þessari umræðu og það ætti hv. fyrri ræðumaður að hafa skilið.