Rennslistruflanir í Soginu

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:48:38 (801)

1995-11-08 13:48:38# 120. lþ. 30.2 fundur 83. mál: #A rennslistruflanir í Soginu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:48]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir einkar skýr og glögg svör. Hér hefur komið fram að Landsvirkjun hefur brotið í bága við niðurstöður gerðardóms sem féll 1969 að minnsta kosti 109 sinnum þannig að það er alveg ljóst að hún hefur hagað sér af gríðarlegu óhófi. Það er nákvæmlega mergur málsins. Það er það sem ég er að reyna að draga fram og undirstrika, bæði gagnvart þingheimi og hæstv. iðnrh. vegna þess að ég veit að hann er velviljaður þessu máli. Ég hugðist draga það fram að Landsvirkjun hagar sér oft eins og óheflaður barbari þegar lífríki náttúrunnar er annars vegar. Ég hika ekki við að segja það, herra forseti, að stórkostlegasta umhverfisslys sem hefur orðið á Íslandi var bygging Steingrímsstöðvar. Ég hika ekki við að segja það. Mér þykir hins vegar vænt um að hæstv. iðnrh. hefur lagt þessar upplýsingar fram. Ég veit að hann er áhugamaður um vernd lífríkis og náttúrunnar og ég spyr hann hvort hann muni ekki, í framhaldi af því að hann hefur þessar upplýsingar fyrir framan sig, beita sér fyrir því að Landsvirkjun fari að haga sér eins og siðaðir menn gagnvart náttúrunni.