Eftirlit með viðskiptum bankastofnana

Miðvikudaginn 08. nóvember 1995, kl. 13:52:32 (803)

1995-11-08 13:52:32# 120. lþ. 30.3 fundur 123. mál: #A eftirlit með viðskiptum bankastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi VÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur


[13:52]

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Ingi Árnason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur alda gjaldþrota tröllriðið íslensku viðskiptalífi. Það sem einkennir sérstaklega gjaldþrot síðari ára og gerir þau frábrugðin því sem áður var er að æ algengara verður að engir fjármunir finnast í þrotabúum við rekstrarlok. Þvert á móti verður í auknum mæli vart við aðila sem hafa með skipulögðum blekkingum efnt til skulda sem þeir víkja sér hjá að greiða með einföldu gjaldþroti eða bókhaldstilfæringum og hefja síðan rekstur aftur með annarri kennitölu og nýjum blekkingum. Á fundi um agaleysi í viðskiptum sem Samtök iðnaðarins héldu nýverið kom fram í máli lögfræðings samtakanna að allt of mörg dæmi séu um rekstur óreiðufyrirtækja sem lúta ekki eðlilegum viðskiptalögmálum. Fyrirtækjum væri haldið gangandi löngu eftir að ljóst væri að þau væru hætt að geta staðið við skuldbindingar sínar.

Í 15 mánuði hefur samstarfshópur um bætt viðskiptasiðferði, sem er vinnuhópur tíu atvinnufyrirtækja á Akureyri, aflað gagna um eitt slíkt óreiðufyrirtæki. Árangur þeirrar gagnaöflunar er skráður í þessu riti sem nokkrir ráðherrar og alþingismenn hafa fengið í hendur. Þar koma fram upplýsingar um það hvernig viðskiptabanki hefur með blekkingum haldið óreiðufyrirtæki gangandi löngu eftir að því bar samkvæmt lögum að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. Í ritinu og fylgigögnum þess koma einnig fram staðfestar upplýsingar margra nafngreindra aðila og fyrirtækja þeirra sem skýra frá því að bankastjóri viðskiptabankans sem deildi og drottnaði yfir fjármunum óreiðufyrirtækisins hafi fullyrt og fullvissað þá um að hagur þess væri traustur og færi batnandi. Á sama tíma sýndi útskrift bankareikninga fyrirtækisins að á móti rúmlega 100 millj. kr. rekstrartekjum var það með yfir 100 millj. kr. yfirdráttarskuld í bankanum og þar af um 40--50 millj. í óheimiluðum yfirdrætti sem fór vaxandi.

Þar koma einnig fram staðfestar yfirlýsingar nafngreindra aðila um að þeir hafi verið hlunnfarnir um milljónir kr. á grundvelli rangra upplýsinga bankastjóra viðskiptabankans á meðan bankinn sjálfur hafði á 30 mánaða tímabili yfir 70 millj. vaxtatekjur af óreiðuskuldum fyrirtækisins. Það kemur einnig fram að þessi tiltekni viðskiptabanki hefur oftar en einu sinni verið dæmdur í Hæstarétti til að greiða fólki milljónir kr. í skaðabætur vegna óvandaðra viðskiptahátta. Því spyr ég hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga:

Hvernig er háttað eftirliti viðskrn. með framkvæmd laga um viðskiptabanka og hver er verkaskipting þess og bankaeftirlitsins í því sambandi?

Hefur ráðuneytið rannsakað eða hlutast til um rannsókn bankaeftirlitsins á viðskiptum Íslandsbanka hf. við fyrirtækið A. Finnsson á Akureyri með tilliti til þess hvort um er að ræða brot á lögum um viðskiptabanka? Sé svo ekki, mun þá ráðuneytið rannsaka eða hlutast til um að viðskipti bankans eða fyrirtækisins verði rannsökuð?