Græn ferðamennska

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 10:34:55 (819)

1995-11-09 10:34:55# 120. lþ. 32.1 fundur 66. mál: #A græn ferðamennska# þál. 66, Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[10:34]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 66, 66. mál, um stefnumótun í ferðamálum með áherslu á ,,græna ferðamennsku``. Hún hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að skipa nefnd til að fella áherslu á ,,græna ferðamennsku`` inn í stefnumótun í ferðamálum hér á landi.``

Þáltill. um þetta mál var lögð fram á 119. löggjafarþingi og var flm. sú sem hér stendur, en tillagan hlaut ekki afgreiðslu. Hún er nú flutt aftur, lítillega breytt, og eru flm. auk mín nú hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.

Móttaka ferðamanna er mjög vaxandi atvinnuvegur og þjónustugrein hér á landi. Ferðaþjónustan hefur vaxið mjög hratt og erlendum ferðamönnum sem komið hafa hingað til lands hefur fjölgað um meira en 100% á 10 árum. Stjórnvöld binda miklar vonir við greinina en til þess að þær vonir rætist verður að huga að því hvert skal stefna í ferðaþjónustunni, hvernig við viljum byggja upp móttöku ferðamanna og um leið standa vörð um náttúruperlur okkar.

Áherslur í ferðaþjónustunni eru síbreytilegar og því er mikilvægt að fylgst sé með straumum og stefnum í þeirri atvinnugrein sem öðrum. Stefna sú í ferðamálum sem kennd hefur verið við ,,græna ferðamennsku`` er vistvæn eða sjálfbær ferðamennska. Í henni er lögð áhersla á vistvænt umhverfi, að staðir haldi sínu upprunalega útliti og að heimamenn séu hafðir með í ráðum þegar ferðaþjónustan er skipulögð. Einnig er mikilvægt að hafa í huga hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur á umhverfi, menningu og efnahag viðkomandi lands. Kynning á ferðaþjónustu er mjög mikilvægur þáttur hennar og öll markaðssetning. Það er því mjög mikilvægt að kynna ferðaþjónustuna sem rekin er á vistvænan hátt sérstaklega sem slíka.

Sívaxandi hópur ferðamanna sækist eftir því að ferðast ,,grænt`` og setur kröfur um að sú ferðamennska sem þannig er kynnt sé í raun vistvæn ferðamennska. Það hefur einnig verið mikilvægur þáttur í vistvænni ferðaþjónustu að fá ferðamenn til að nota innlendar framleiðsluvörur enda vilja þeir sem aðhyllast þessa tegund ferðamennsku gjarnan reyna innlendar vörur. Þeir leggja einnig mikið upp úr að nota almenningssamgöngur og varast að misbjóða landinu með ágangi.

Ísland hefur vegna sérstæðrar náttúru og hreinleika landsins meiri möguleika en flest önnur lönd til að laða að sér útlendinga sem aðhyllast þessa tegund ferðamennsku en talið er að þeir séu tugir milljóna og þeim fari mjög fjölgandi. Ýmsir markaðsmenn telja að í ,,grænni ferðamennsku`` sé fólginn einn helsti vaxtarbroddurinn sem Íslendingar eiga í atvinnumálum um þessar mundir. Stefnumörkun er mjög mikilvæg í ferðamennsku og því fagna ég því að hæstv. samgrh. hefur sett vinnu í gang í stefnumótun þessarar atvinnugreinar eins og kom fram í fréttum á ferðamálaráðstefnu í Vestmannaeyjum í síðasta mánuði.

Reynsla þjóða sem hafa verið leiðandi í ferðaþjónustu er að vanda verður til hennar. Þjóðir sem hafa byggt stóran hluta þjóðarframleiðslu sinnar á ferðamennsku án þess að marka ákveðna stefnu í ferðaþjónustu eiga nú við ýmsan alvarlegan vanda að etja, svo sem umhverfisspjöll, mengun og félagsleg og menningarleg vandamál. Markvissa stefnumótun vantar sárlega í íslenska ferðaþjónustu og rannsóknir í greininni eru í lágmarki.

Það kom fram á fundi samgn. í gærmorgun hjá þeim Magnúsi Oddssyni og Birgi Þorgeirssyni að nánast engu fé er varið til rannsóknar- og þróunarstarfs eða tæplega 1 millj. á þessu ári. Þetta er mjög alvarlegt í svo vaxandi atvinnugrein og viðkvæmri. Fjárveiting til Ferðamálaráðs í fjárlagafrv. verður að aukast svo að þeir geti sinnt a.m.k. lágmarksrannsóknum í greininni. Vonast ég eftir því að umræðan um stefnumótun í ferðaþjónustu hér og hjá fagfólki í greininni og sú vinna sem farin er af stað í samgrn. bæti úr þessu og einnig sá aukni skilningur á þörf á rannsóknum eins og kemur fram í þingmáli því sem er hér á dagskrá seinna á þessum fundi um rannsóknir í ferðaþjónustu.

Ef við ætlum að byggja ferðaþjónustuna upp til að hún megi verða sem blómlegust um alla framtíð er nauðsynlegt að huga að heildarstefnumótun hennar ella gætum við lent í sömu sporum og þær ferðamannaþjóðir sem hafa vanrækt stefnumörkun og búa við það ástand að búið er að kippa undirstöðunum undan ferðaþjónustu þeirra. Á fundi samgn. í gær lýstu fulltrúar Ferðamálaráðs mjög miklum áhyggjum yfir því hvernig náttúruperlur okkar væru alls staðar að drabbast niður vegna ágangs ferðamanna og ekki væri hugað að né veitt fé til að þær gætu haldið upprunalegu horfi. Nefndu þeir t.d. að hveraröndin á Hveravöllum væri að hverfa vegna þess að ferðamenn gengju þar yfir allt. Aðeins var veitt 5 millj. til viðhalds og verndarstarfs á frægum og viðkvæmum, fjölsóttum ferðamannastöðum á öllu landinu á fjárlögum síðasta árs, þ.e. fyrir árið í ár.

Hvað höfum við umfram aðrar þjóðir til að laða að erlenda ferðamenn hingað til lands ef við varðveitum ekki náttúrufyrirbæri sem eru sérkenni lands okkar? Dæmi um það sem komið hefði verið í veg fyrir ef stefnumörkun í ferðamálum hefði verið fyrir hendi og þá sérstaklega stefnumótun í ,,grænni ferðamennsku`` er, svo ég nefni eitt lítið dæmi, borun eftir heitu vatni til húshitunar og heimabrúks á svæðinu umhverfis Geysi í Haukadal. Þar hafa verið boraðar 10 holur og er þar verið að sækja heitt vatn í e.t.v. sömu heitavatnsæðar og halda hverasvæðinu við Geysi virku. Það mundi seint hvarfla að Bandaríkjamönnum að leyfa borun í nágrenni við þeirra frægasta goshver, Old Faithful í Yellowstone Park. Geysir í Haukadal er heimsfrægur og bera hverir víða í heiminum nafn hans auk þess sem samheiti við fyrirbærið goshver á erlendum tungum er nafn þessa hvers. Þetta viðkvæma og fjölsótta svæði verður að vernda eins og önnur sambærileg svæði, það þarf að gæta þess eins og annarra náttúruperla. Það yrði áfall fyrir ferðaþjónustu á Íslandi ef hverasvæðið í Haukadal yrði óvirkt eða þurrkaðist upp.

Til að koma í veg fyrir slík náttúruspjöll ætti t.d. að bjóða bændum í kring ódýrari raforku til húshitunar og heimabrúks því að af henni eigum við nóg. Við verðum að vera tilbúin að bregðast við neikvæðum fylgifiskum ferðamennskunnar eins og náttúruspjöllum ýmiss konar, átroðningi og óvissum aðgerðum og framkvæmdum. Mikilvægt er að leggja áherslu á gæði þjónustunnar og velta fyrir sér hvort fara beri leið gjaldtöku í ferðaþjónustunni. Það er brýnt að farið verði að huga að þessum málum, en löggjöf okkar um ferðamál er orðin tveggja áratuga gömul og þarfnast heildarendurskoðunar. Lög og reglur um ferðaþjónustu verða að vera í takt við þá tíma sem við lifum á svo hún fái að vaxa og dafna til hagsbóta fyrir alla. Við verðum að skipuleggja ferðaþjónustuna betur, setja okkur vel skilgreind markmið til næstu 10--20 ára, ákveða hversu marga ferðamenn við viljum og hve mikið af tekjum fyrir þjóðarbúið þeir skilji eftir í landinu og hvaða áhrif þeir hafi á atvinnulífið og landið sjálft.

Gjaldeyristekjur af komu erlendra ferðamanna hingað til lands eru um 20 milljarðar á þessu ári. Til samanburðar má geta þess að útflutningstekjur okkar af sjávarafurðum eru um 80 milljarðar þannig að um fjórðungur af þeim tekjum sem við höfum af útflutningi á sjávarafurðum sem kemur með erlendum ferðamönnum, en gert er ráð fyrir að þeir verði um 195 þús. á þessu ári og hefur aukningin verið um 50% frá árinu 1992.

Til viðbótar er talið að landsmenn sjálfir eyði á bilinu 15--18 milljörðum á ferðalögum innan lands svo heildartekjur af ferðamönnum á árinu í ár verða að líkindum allt að 38 milljarðar kr. Þetta var upplýst á fundi samgn. í gærmorgun. Í atvinnugreininni nú eru um 6 þús. ársverk og er búist við að við bætist um 2.500--3.000 störf á næstu 15 árum. Það er því mjög mikilvægt að við hugum vel að framtíðarþróun í ferðaþjónustunni.

Nú hefur heyrst að hæstv. samgrh. sé með stefnumótunarvinnu í gangi í samgrn. eins og ég nefndi áðan og því er nauðsynlegt að tekið sé tillit til þeirra hugmynda eða hugmyndafræði sem kölluð hefur verið ,,græn ferðamennska`` í þeirri vinnu. Því teldi ég eðlilegt að nefnd sérfróðra aðila í ferðamálum og þeirra sem þekkja hugmyndafræði ,,grænnar ferðamennsku`` kæmu til liðs við þá sem sinna stefnumótun í ferðamálum fyrir hæstv. ráðherra. Nefnd sú, sem hér er lagt til að skipuð verði, yrði til að vinna efni inn í stefnumótunarvinnu hæstv. ráðherra. Ég vona að hæstv. ráðherra fari að óskum okkar flm. þessarar þáltill. og skipi nefnd til að vinna þetta verk.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.