Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 16:19:48 (854)

1995-11-09 16:19:48# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[16:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Egill Jónsson segir að það sé ekki sæmandi að bera þessar styrkveitingar Byggðastofnunar á milli landshluta. Ég ætla ekki að fara í neitt sérstakt karp út af þessu en ég vil bara biðja hv. þm. um að láta kanna það hjá Byggðastofnun hvernig þessum úthlutunum hefur verið varið á síðustu árum á milli landshluta og mér þætti vænt um að sjá það. Ég held ég fari ekki rangt með það að á árinu 1993 fengu Suðurnes 37 millj. kr. af þeim fjármunum sem var úthlutað, af 700 millj. kr. ef ég man rétt. Það voru þær upplýsingar sem ég fékk í vor um þær úthlutanir sem þá höfðu verið samþykktar af hálfu stjórnarinnar.

Ég veit ekki hvað menn kalla sæmandi í þessum efnum en a.m.k. held ég að það sæmi okkur alveg á Suðurnesjum að reyna að krefjast þess að fá það sem réttlætanlegt er. Ég held að það sé engin spurning um það að atvinnulífið á Suðurnesjum var verst á öllu landinu á nýliðnu kjörtímabili.

Ég er alls ekki að rýra hlut þeirra manna sem þarna hafa setið í stjórn. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að Karl Steinar Guðnason hafi aldrei verið í stjórn Byggðastofnunar. En ég sagði menn af Suðurnesjum, ég sagði ekki úr kjördæminu. Ég ætla ekki að kasta neinni rýrð á störf Ólafs G. Einarssonar og Geirs Gunnarssonar enda er mjög langt síðan þeir voru í stjórn en ég sagði að það væri a.m.k. mjög langt síðan þaðan hefði verið maður í stjórn og ég held að enginn hafi verið beinlínis af Suðurnesjum. Samt held ég að óhætt sé að minna á að ýmislegt hefur verið gert á Suðurnesjum af hálfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það var gert á síðasta kjörtímabili í svokallaðri Suðurnesjaáætlun en það kom ekkert af þeim peningum sem þangað voru settir úr Byggðastofnun.