Ríkisreikningur 1994

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 11:57:02 (891)

1995-11-16 11:57:02# 120. lþ. 33.6 fundur 129. mál: #A ríkisreikningur 1994# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[11:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er satt að segja fróðlegt að hlýða á þessa umræðu. Sérstaklega á þátttakendur Sjálfstfl. vegna þess að aðalvandi ríkisfjármála á Íslandi hefur eins og kunnugt er verið Sjálfstfl. Það er enginn flokkur ábyrgðarlausari þegar kemur að meðferð almannafjár en Sjálfstfl. Það sést auðvitað best í Reykjavík þar sem slóðinn eftir Sjálfstfl. er ekki talinn í 100 millj. heldur í milljörðum. Það sýna monthúsin sem voru reist hér í Reykjavík og fleira í þeim efnum. Menn ættu líka að horfa á þann veruleika sem birtist í fjárlögum undanfarinna ára þar sem Sjálfstfl. sýnir alveg sérstakt ábyrgðarleysi. Það er í rauninni athyglisvert að skoða þetta vegna þess að niðurstaðan er sú að hann má ekki koma nálægt almannafé. Þá fer hann illa með það. Og eitt ljótasta dæmið er t.d. þegar hent var út úr ríkissjóði verulegum fjármunum á árinu 1986, gjörsamlega út í loftið og samhengislaust við alla hluti. Reyndar mætti nefna fleiri dæmi í þessu sambandi. Nýjasta dæmið um ábyrgðarleysi, og þá Sjálfstfl. alveg sérstaklega, er einmitt það sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi hérna áðan. Það er eyðslufylleríið sem er þegar byrjað, ekki út af nýju álveri heldur stækkun þess. Það hefur sem sagt verið rætt um að það eigi eitthvað aðeins að stækka álverið. Og það er talað um að þetta séu kannski 0,5--0,7% í þjóðartekjur. Það er búið að eyða þessu, sáldra þessu út um allt. Það er bersýnilegt að þessi vandi sem Sjálfstfl. hefur verið ríkisfjármálum og meðferð almannafjár á Íslandi á undanförnum árum ætlar enn að endurtaka sig. Og þá alveg sérstaklega hvað varðar álversmálið.

Staðreyndin er auðvitað sú, hæstv. forseti, að þær hugmyndir sem hafa verið uppi varðandi lausn á þessum vanda hafa ekki náð fram að ganga og ekki dugað af því menn hafa ekki þorað að ná í peningana þar sem þeir eru til í þessu þjóðfélagi. Hér í þessum sal má nefna til dæmis fjmrh. sem hefur sýnt ágæta niðurstöðu hjá ríkissjóði um alllangan tíma og afgang á ríkissjóði, eða þann sem situr hér nú í forsetastóli. Ég held satt að segja að það séu hlutir sem menn ættu að skoða aðeins betur, að þar var í raun og veru haldið vel á hlutunum og farið vandlega yfir málin miðað við óvenju erfiðar aðstæður.

En erindi mitt í stólinn er aðallega, hæstv. forseti, til að vekja athygli á niðurstöðum þessarar umræðu sem eru þær að það á ekki að hleypa Sjálfstfl. að almannafé.