Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:17:50 (898)

1995-11-16 12:17:50# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:17]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Þetta er 134. mál þingsins og er að finna á þskj. 160.

Meginbreytingin sem hér er lögð til er sú að lagt er til að tryggingagjaldinu verði skipt upp í tvö gjöld, þ.e. atvinnutryggingagjald og almennt tryggingagjald. Þannig verði gerður skýrari munur á tryggingagjaldi eftir því hvort tekjurnar renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða til annarra. Þessi breyting hefur ekki í för með sér neinar breytingar á innheimtu tryggingagjalds, heldur snýr hún einungis að því að draga skýrari línur á milli þess hluta tryggingagjaldsins sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs og þess hluta sem runnið hefur til annarra.

Jafnframt þessari breytingu er lagt til að tryggingagjaldið verði hækkað um 0,5% og er þeirri hækkun ætlað að mæta aukinni þörf Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Í 2. gr. frv. er það nýmæli að lagt er til að sú skylda verði lögð á fjmrh. að flytja á hverju hausti lagafrv. um breytingar á skatthlutfalli atvinnutryggingagjalds ef í ljós kemur að því þurfi að breyta vegna fjárhagslegrar stöðu sjóðsins og verði það gert með hliðsjón af fyrirliggjandi spám um atvinnustig og öðrum þeim atriðum sem áhrif kunna að hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins á næsta fjárhagsári. Eðli máls samvæmt getur þetta hvort heldur sem er leitt til hækkunar gjaldsins eða lækkunar.

Gert er ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs að frádregnum vaxtatekjum og greiðslum til Eftirlaunasjóðs aldraðra nemi um 3,3 milljörðum kr. á næsta ári. Til að standa undir þeim útgjöldum þurfa tekjur sjóðsins af tryggingagjaldi að nema 1,5% af gjaldstofni. Núgildandi tekjustofn sjóðsins er 0,5% af tryggingagjaldi auk þess sem ríkissjóður leggur fram jafnhátt framlag. Að óbreyttu er talið að ríflega 1 milljarð vanti í sjóðinn á næsta ári til að hann fái staðið undir skuldbindingum sínum miðað við spá um 4,8% atvinnuleysi og áform um að 300 millj. kr. lækkun á útgjöldum sjóðsins nái fram að ganga.

Frá árinu 1991--1995 hefur ríkissjóður lagt til u.þ.b. 4,6 milljarða kr. í sjóðinn umfram lögbundin framlög til að hann geti staðið undir skuldbindingum sínum án lántöku. Það er ástæða til, virðulegi forseti, að minna á að lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð eru þannig að ef fjármunirnir sem eru lögbundin framlög duga ekki fyrir útgjöldum sjóðsins á sjóðurinn að taka lán sem síðan á að endurgreiða með tekjum eða framlögum til sjóðsins. Hér er verið að segja að á árunum 1991--1996 mun vanta 5,6 milljarða á að framlögin dugi. Það hefði verið kostur, og reyndar samkvæmt lögunum, að efna til lántöku fyrir sjóðinn en ríkisstjórnin sem starfaði á síðasta kjörtímabili ákvað að fara ekki þá leið heldur að leggja fram úr ríkissjóði viðbótarfjármuni til sjóðsins. Hér er því lagt til að tryggingagjald verði hækkað um 0,5% og hluta þess, eða allt að 1,5%, verði varið til Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. Á móti er gert ráð fyrir að létt verði af sjóðnum þeirri kvöð að hann skuli standa undir hluta af kostnaði við eftirlaun aldraðra og mun sá kostnaður sem er 250 millj. á næsta ári verða greiddur úr ríkissjóði.

Einnig verða lagðar til viðeigandi breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem bein framlög ríkissjóðs í sjóðinn verða felld niður, en þess í stað verði kveðið á um að sjóðurinn fái tekjur af atvinnutryggingagjaldi í samræmi við þær breytingar á lögum um tryggingagjald sem hér eru lagðar til.

Það er rétt að það komi fram að slíkar lagabreytingar eru á verksviði félmrn. eftir að Atvinnuleysistryggingasjóður fluttist úr heilbrrn. til félmrn. og unnið er að lagafrv. sem tekur á þessu máli og nokkrum öðrum. Með framangreindum breytingum á tekjustofni Atvinnuleysistryggingasjóðs, þ.e. að gjaldið skuli ákveðið með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu sjóðsins, fæst aukið aðhald frá þeim sem standa undir kostnaðinum. Reynslan af sérstöku gjaldi í ábyrgðarsjóð launa gefur tilefni til að ætla að fjárhagsleg stjórn sjóðsins batni og aðhald aukist þegar saman fer bein og óbein fjárhagsleg ábyrgð og ábyrgð á rekstri sjóðsins.

Þá eru í 4. gr. frv. lagðar til breytingar á fjárhæð 6. gr. laganna. Breytingin felst í því að afnumin er sjálfvirk verðuppfærsla fjárhæðarinnar miðað við skattvísitölu og er lagt til að fest verði í lögunum sú fjárhæð sem lögð var til grundvallar við álagningu í ár. Þetta er í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem lagt hefur verið fram á hinu háa Alþingi á þskj. 174, en samkvæmt því frv., sem verður til umræðu síðar í dag, er gert ráð fyrir að felld verði niður sú grein þeirra laga sem kveður á um verðbreytingar miðað við skattvísitölu.

Að öðru leyti held ég, virðulegi forseti, að vísa megi til skýringa sem eru með frv. og á einstökum greinum þess, en ég legg til að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.