Tryggingagjald

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 12:32:01 (900)

1995-11-16 12:32:01# 120. lþ. 33.7 fundur 134. mál: #A tryggingagjald# (atvinnutryggingagjald o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[12:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fylgifrumvörpin eru af tvennum toga. Annars vegar má búast við því að síðar í þessum mánuði komi fram bandormur ríkisstjórnarinnar sem er til fyllingar ýmsum ákvæðum fjárlagafrv. á gjaldahlið. Hins vegar má búast við því að á vegum einstakra ráðuneyta komi fram frumvörp sem snerta breytingar á ýmissi starfsemi, þar á meðal veit ég að það starfar nefnd sem vinnur að því að breyta lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð.

Í öðru lagi vil ég að það komi skýrt fram að hugmyndin er að ríkissjóður leggi fram þá fjármuni, um það bil 250 millj. kr., sem gangi til Eftirlaunasjóðs aldraðra. Það er verið að færa þetta á milli handa. Það er ríkissjóður sem greiddi í Atvinnuleysistryggingasjóð, en það er talið eðlilegra að þetta gerist með beinum hætti frá ríkissjóði þannig að ekki er verið að breyta neinum hlutum gagnvart þessu fólki.

Loks um fjármunina. Það er út af fyrir sig rétt að það hefði mátt setja skýrar inn í þetta frv. hvað um er að ræða, en til þess að hlaupa á nokkrum tölum, ef tími gefst til í þessu andsvari, þá hef ég sett upp áhrif af þeim breytingum sem verið er að gera á árinu 1995 og alveg til ársins 1998. Það er talið að skattfrelsi lífeyrisiðgjaldanna kosti ríkissjóð á yfirstandandi ári 600 millj., á árinu 1996 400 millj., 1997 400 millj. og 1998 200 millj. Það er talið að hækkun tryggingagjaldsins, þ.e. 0,5%, sé 1 milljarður á ári, þar af 900 á næsta ári en síðan 1 milljarður eftir það. Það bætast sem sagt við 100 millj. á árinu 1997. Í tekjuskattinum er búist við því að nettóáhrifin séu á ársgrundvelli 500 millj. Það komi 900 inn á næsta ári mínus 500 millj. sem spilað er út og 100 millj. bætast við á árinu 1997. Þannig fær ríkissjóður af þessum breytingum öllum á árinu 1996 um 300 millj. kr. umfram það sem tapast, 100 millj. 1997 en tapar 100 millj. frá árinu 1998 og þau ár sem eftir lifa. Þetta er reikningur sem ég skal síðan gefa betri upplýsingar um síðar í umræðum um málið, en auðvitað þarf nefndin einnig að fá nákvæmar upplýsingar um þetta.