Staðgreiðsla opinberra gjalda

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 13:43:41 (908)

1995-11-16 13:43:41# 120. lþ. 33.9 fundur 136. mál: #A staðgreiðsla opinberra gjalda# (álag á vanskilafé) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[13:43]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Þetta frv. er 134. mál þingsins og er að finna á þskj. 160.

Í frv. eru lagðar til tvær breytingar á staðgreiðslulögum. Í 1. gr. er lagt til að síðari málsliður 6. mgr. 28. gr. laganna falli brott en þar er kveðið á um málskot til ríkisskattstjóra vegna álagsbeitingar á vanskilafé í staðgreiðslu. Umboðsmaður Alþingis fjallaði um þetta ákvæði í áliti sínu nr. 877/1993 og komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að yfirskattanefnd væri falið að fjalla um niðurfellingu álags. Ég tek undir þetta álit umboðsmanns enda er meginreglan í skattaréttarfari að kærumál gangi til yfirskattanefndar.

Með þessu frv., ef samþykkt verður, er þannig gert ráð fyrir að úrskurður skattstjóra um álag á staðgreiðslu verði kæranlegur til yfirskattanefndar en ekki aðeins til ríkisskattstjóra eins og verið hefur.

Í 2. gr. er gerð brtt. um 2. mgr. 34. gr. í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessari grein, eins og hún hjóðar í gildandi lögum, skal mismunur sem kann að verða við álagningu opinberra gjalda á álagningunni annars vegar og innborgaðri staðgreiðslu hins vegar, verðbætast miðað við lánskjaravísitöluna.

[13:45]

Í 2. gr. frv. er lagt til að horfið verði frá vísitölutengingu og í stað þess lagt 2,5% álag á mismuninn. Gildir álagsbreytingin hvort heldur sem um er að ræða skuld sem þannig myndast við álagningu eða inneign. Þannig eru báðir aðilar jafnir hvað það snertir. Eins og allir sjá er álagið svipað og gera má ráð fyrir að árleg verðbólga hafi verið og verði á næstunni.

Að þessu mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.