Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 11:18:40 (958)

1995-11-17 11:18:40# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[11:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þjóðvaka fyrir að flytja þessa tillögu til þingsályktunar. Þetta mál er mjög brýnt og mjög miklir hagsmunir í húfi. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum sem hér situr og þjóðinni allri að sívaxandi óánægju gætir úti í þjóðfélaginu með núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar og megináhyggjuefnið er að þetta kerfi hefur mistekist í veigamiklum atriðum. Bæði hefur því ekki tekist að vernda fiskstofnana, brottkast er óhóflega mikið og svo hitt að kerfið samræmist ekki 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, eins og hér hefur verið rætt um. Fiskiheimildirnar færast á æ færri hendur og erfitt er að sjá að auðlindin sé í raun í eigu íslensku þjóðarinnar. Nú er til umræðu að heimila veðsetningu á kvóta og komið hefur í ljós að erlendir aðilar hafa eignast kvóta þó slíkt sé bannað samkvæmt lögum. Þessi umræða tengist réttlæti, tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, öðrum atvinnurekstri og ef til vill efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Í stefnuskrá Kvennalistans eru annmarkar núgildandi kerfis dregnir skýrt fram og lögð til róttæk endurskoðun á núverandi fiskveiðistjórnun til að ná þeim markmiðum að þjóðin öll njóti afraksturs auðlindarinnar, að tryggð sé verndun fiskstofnanna og að fiskiskipastóll landsmanna minnki og verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt. Mér finnst mjög brýnt að komist verði til botns í því formlega hvort núgildandi stefna við fiskveiðistjórnun er ekki hreinlega lögbrot. Við í Kvennalistanum erum þeirrar skoðunar að ef ekki næst meiri háttar uppstokkun á þessu kerfi og því miður virðist ekki vera neinn pólitískur vilji fyrir því hjá núv. hæstv. sjútvrh., þá sé það mjög mikið réttlætismál að styðja hugmyndina um aflagjald eða veiðileyfagjald. Og það sé rétt að útfæra hana þannig að þjóðin fái greitt fyrir afnot af auðlindinni í stað þess að hún afhendist æ færri útgerðarmönnum frítt sem síðan versla með þau auðæfi sín á milli, hirða gróðann sjálfir og láta kvóta ganga í erfðir til barna sinna.

Við munum því styðja þáltill. sem hér er til umræðu. Ég tel að þetta mál verði að fá mjög vandaða umræðu, hvort sem er í sjútvn. eða efh.- og viðskn., jafnvel í báðum nefndunum, og það eigi að senda málið til umsagnar mjög víða. Eftir þá umræðu verður væntanlega ljósar með hvaða hætti veiðileyfagjaldi verður best komið á. Ég vil aðeins segja á þessu stigi málsins að varðandi þær sjö leiðir sem nefndar eru í grg. hv. flm. þá sýnist mér leið tvö langsíst þar sem talað er um að útgerðin greiði í eitt skipti fyrir öll gjald fyrir veiðileyfi og síðan yrði það eins og eign. Ég tel það ekki koma til greina.

Ég vil aðeins minna á að nú ganga aflaheimildir kaupum og sölum á milli útgerðarmanna þó þeir fái þær frítt frá ríkinu. Þeir selja síðan hver öðrum aflaheimildirnar en arðurinn fer ekki til ríkisins eða til þjóðarinnar heldur til þeirra sjálfra og reyndar kostnaðurinn líka. Þeir greiða nú þegar aflagjald og það væri mun réttlátara að þetta gjald færi til þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé eitt mesta réttlætismál í íslenskum stjórnmálum í dag og löngu tímabært að Alþingi taki á því með ábyrgum hætti.

Það má ef til vill hugleiða hvort þetta form á tillögunni sé hið ákjósanlegasta, samanber athugasemdir hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér áðan, en ég held að orðalagið mætti skoða betur í nefndum. Mér sýnist af umræðunni hér að það séu að minnsta kosti þrír þingflokkar sem styðja þessa hugmynd og það verður mjög fróðlegt að heyra hvernig sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og alþýðubandalagsmenn ætla að taka á þessu máli. Ég skora á hæstv. sjútvrh. að hlusta á þau réttlætisrök sem hér eru að baki.

Að lokum vil ég benda á að það eiga sér stað úti í heimi á ýmsum fagráðstefnum mjög frjósamar umræður um fiskveiðistjórnun, t.d. um alls konar útfærslu á byggðakvótahugmyndinni sem við kvennalistakonur höfum lengi haldið fram á Alþingi. Ég tel löngu tímabært að þjóðin reyni að kynna sér það nýjasta sem er að gerast í þeim efnum og horfi frá þeirri braut sem hér hefur verið fylgt síðan 1984.