Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 12:01:01 (970)

1995-11-17 12:01:01# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[12:01]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Mjög skýrar þverstæður koma fram í málflutningi tillögumanna í umræðunni og reyndar í greinargerðinni með þáltill. Tillagan byggir á þeirri grundvallarafstöðu flutningsmanna að markaðskerfi eigi að ríkja með aflaheimildir. Þær eigi að vera framseljanlegar, það eigi að vera fullkomið frelsi í kaupum og sölum á aflaheimildum, menn eigi að geta hagrætt með samruna fyrirtækja og kaupum á aflaheimildum. Þarna á markaðskerfið að virka til þess að tryggja mesta hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsins í þágu fólksins í landinu. Því verður aðeins náð með þessu markaðskerfi. Það er grundvallaratriðið í málflutningi tillögumanna eins og hér kemur fram.

Hins vegar komast þeir að þeirri niðurstöðu í greinargerð með tillögunni að fiskihagfræðin hafi fundið út að skattlagning sem kostnaðaraukning leiði sjaldnast til hagkvæmustu sóknar fiskiskipa. Þeir leggja til að auka kostnað og draga úr möguleikum á því að ná fram mestri hagræðingu. Á þann hátt gengur tillagan raunverulega eftir orðum þeirra gegn þeim grundvallarmarkmiðum sem þeir telja að fiskveiðistefnan eigi að byggja á.

Það er mjög mikilvægt og ber að hæla flutningsmönnum fyrir það að þeir leggja ekki til skattheimtu sem þátt í fiskveiðistjórnun. Tillaga þeirra byggir á því að stjórnmálamenn ráðstafi arðinum af sjávarútvegi skynsamlegar og réttlátar en stjórnendur fyrirtækjanna. Svo kemur fram þverstæða í málflutningi krataflokkanna tveggja. Gamli krataflokkurinn telur að beita eigi auðlindaskatti til að stjórna fiskveiðunum en nýi krataflokkurinn segir að það sé mjög erfitt á grundvelli fiskihagfræðinnar og nánast útilokað. Þeir segjast aðeins flytja tillöguna til að ná fram meira réttlæti af því að stjórnmálamenn úthluta arðinum af meira réttlæti. Það á ekki við um aðrar atvinnugreinar, þar gildir þetta ekki. Krónunum sem verða til þar er betur ráðstafað í efnahagskerfinu sjálfu. Það á bara við um krónurnar sem verða til í sjávarútveginum að stjórnmálamennirnir ráðstafi þeim betur.

Hvað halda menn að gerist þegar hinn svokallaði kostnaðarauki bætist ofan á þann kostnað sem fyrir er? Hvaða áhrif hefur það á sjávarútveginn? Er markmið okkar ekki fyrst og fremst að stuðla að betri samkeppnisstöðu sjávarútvegsins? Við erum að keppa við ríkisstyrktan sjávarútveg í samkeppnislöndunum. Svo segir hv. flm. að þeir ríkisstyrkir skipti sjávarútveginn engu máli, við getum aukið kostnaðinn hér heima. Auðvitað fær þetta ekki staðist og er jafnfjarstæðukennt og allt annað. Hvar á þá að borga skattinn? Ekki flytjum við hann til útlanda, kaupendurnir ætla ekki að borga hann fyrir okkur. Ég er alveg sannfærður um að hv. flm., sem er varaformaður stjórnar Granda sem heldur upp á tíu ára afmæli fyrirtækisins í dag, ætlar ekki að segja á afmælishátíðinni að þetta eigi að taka af arðinum og lækka arðgreiðslurnar til hluthafanna. Hann ætlar ekki að fara með þann boðskap á afmælishátíðina í dag. Krataforingjarnir, formenn Alþfl. og Alþb., lofuðu í kosningabaráttunni að lágmarksarðsemi af eigin fé í fyrirtækjum ætti að vera 15%. Ég veit ekki hvað hún er í Granda en ég hygg að hún sé langt fyrir neðan það. Þeir eiga því talsvert eftir til að ná því að uppfylla þau loforð. Hverjir eru stærstu kostnaðarliðirnir? Ætli það séu ekki laun sjómannanna? Hvernig er samkeppnisstaða sjávarútvegsins við útlönd? Erum við ekki að missa fiskvinnslufólk til útlanda af því að við getum ekki borgað nógu há laun? Eigum við ekki að byrja á því að bæta laun fiskvinnslufólksins áður en við förum að leggja þennan nýja skatt á. Eigum við ekki að knýja á um það að fiskvinnslufyrirtækin og sjávarútvegsfyrirtækin borgi fiskvinnslufólkinu eilítið hærri laun áður en við förum með þessa peningana til hæstv. fjmrh. Það er mín skoðun.

Herra forseti. Þegar málið snýst um að þetta sé einungis spurning um að stjórnmálamenn ráðstafi arðinum af sjávarútveginum betur en stjórnendur fyrirtækjanna þá verð ég að segja það sem skoðun mína þó ég hafi mikið álit á hæstv. fjmrh. og beri til hans mikið traust að ég treysti hv. 11. þm. Reykn. miklu betur til að ráðstafa arðinum af Granda á skynsamlegan hátt í þágu þjóðarheildarinnar en hæstv. fjmrh. Það er auðvitað kjarni málsins. Málið snýst um það hvort við höfum þessa ofurtrú á stjórnmálamönnunum til að dreifa arðinum með sem mestu réttlæti. Halda menn að það auðveldi sjávarútveginum í dag að gera þá útrás sem hann er að gera með fjárfestingum erlendis sem kallar aftur á vinnu hér heima? Sölufyrirtækin okkar fá meiri fisk í sölu. Við fáum skipaviðgerðir heim á grundvelli þessara fjárfestinga. Við aukum framleiðslu iðnaðarins og seljum til fyrirtækja í útlöndum á svæðum þar sem við höfum verið að fjárfesta. Við styrkjum skipasmíðaiðnað. Við styrkjum iðnað sem framleiðir fyrir sjávarútveginn. Haldið þið að það auðveldi þetta ef við aukum kostnaðinn og leggjum á nýja skatta? Eða haldið þið að hæstv. fjmrh. sé líklegri til þess að standa í þeirri fjárfestingu að stuðla að alhliða uppbyggingu í íslensku atvinnulífi? Þessi útrás og þessi fjárfesting í sjávarútvegi hefur kannski verið ein helsta stoð og einn helsti vaxtarbroddur í íslenskum iðnaði. Eigum við að drepa þetta allt niður? Ég held að hagnaður í sjávarútvegsfyrirtækjum hafi verið 2 eða 3% sem við teljum mjög góðan árangur miðað við þann mikla niðurskurð sem hefur orðið í aflaheimildum. Eigum við að draga úr þessu og því svigrúmi sem þarna er að skapast með því að leggja á nýja skatta fyrir okkur til að útdeila? Haldið þið að við séum betur til þess fallin að standa í þessum fjárfestingum og millifæra peningana í gegnum okkur og skapa þannig betri stöðu og sóknarfæri fyrir aðrar atvinnugreinar eins og iðnaðinn? Ég hef ekki þessa ofstjórnartrú. Ég hef ekki þá trú að þjóðfélagið vaxi og dafni með þessum hætti. Markaðsbúskapurinn ræður í þessu efni og er grundvöllurinn eins og hv. flm. leggja áherslu á. Svo koma þeir aftan að málflutningi sjálfra sín og segja: Þetta mun leiða til aukinnar óhagkvæmni, þeir segja það sjálfir í greinargerðinni. Meiri óhagkvæmni í rekstri sjávarútvegsins þýðir að fólkið í landinu fær minni afrakstur af þessari atvinnugrein. Þess vegna verður hagkvæmnikrafan alltaf að sitja í fyrirrúmi vegna þess að hún skilar fólkinu í landinu meiri arði og betri lífskjörum af rekstri þessarar atvinnugreinar.

Herra forseti. Ég ítreka það af minni hálfu að hér er um að ræða spurningu um skattheimtu en ekki fiskveiðistjórnun og tek þess vegna undir tillögu hv. 5. þm. Vestf. um að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. en ekki sjútvn.