Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:05:48 (994)

1995-11-17 13:05:48# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., ÓRG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:05]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um veiðileyfagjald hefur því miður verið nokkuð brennd því marki, sem að mínum dómi hefur mjög skaðað þá umræðu á undanförnum árum, að eindregnir talsmenn veiðileyfagjalds hafa blandað þeirri umræðu mjög afdráttarlaust inn í umræðuna um stjórnkerfi á veiðum og gefið þannig mörgum til kynna að með því að taka upp veiðileyfagjald væri hægt að leggja til hliðar það kvótakerfi sem hér hefur verið við lýði. Það hefur aldrei komið skýrt fram í umræðunni hvort veiðileyfagjaldið væri eingöngu greiðsla sem handhafendur kvótans ættu að inna af hendi vegna þess að þeir fengju rétt á að nýta sameiginlega auðlind, eða hvort menn héldu að með álagningu á slíku gjaldi væri hægt að taka upp nýtt stýrikerfi í sjávarútvegi í stað kvótans. Þessi ruglandi kemur því miður nokkuð skýrt fram í greinargerðinni með þessari þáltill.

Grundvallarafstaða mín er hins vegar sú að þegar atvinnufyrirtæki fá rétt til að nýta eign og auðlind sem er þjóðareign, þá getur verið fullkomlega eðlilegt að handhafar þess nýtingarréttar greiði ákveðið gjald í sameiginlegan sjóð. Það tíðkast t.d. í ýmsum löndum að fyrirtæki sem fá að nýta námur, sem eru sameiginleg eign þjóðarinnar, greiða fyrir það ákveðið gjald. Ég hugsa t.d. að ef hér væru einkarekin orkufyrirtæki, þá þætti mönnum sjálfsagt að orkufyrirtækin greiddu ákveðið gjald fyrir að nýta hina sameiginlegu auðlind. Með sama hætti finnst mér það geta verið alveg sjálfsagt mál að þau útgerðarfyrirtæki sem fá að nýta sameiginlega auðlind okkar í hafinu, greiði af því sérstakt gjald. Að því leyti er samanburður hæstv. sjútvrh. við aðrar atvinnugreinar algerlega út í hött. Verslunin á Íslandi nýtir ekki sameiginlega auðlind líkt og sjávarútvegurinn vegna þess að það eru ekki lagaákvæði í íslenskum lögum um að viðskiptakerfið sé þjóðareign.

Iðnaðurinn sem framleiðir vörur hér, t.d. úr innfluttum hráefnum, er heldur ekki í sömu stöðu og sjávarútvegurinn. Og þannig mætti lengi telja, hæstv. sjútvrh., og það er satt að segja gjörsamlega út í hött að ætla sér að flytja þær röksemdir út frá almennum grundvelli markaðskerfisins og öðrum atvinnugreinum, eins og hæstv. sjútvrh. sagði áðan. Staðreyndin er sú, hæstv. sjútvrh., að íslensk lög kveða á um það að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar. Gegnum kvótakerfið er tilteknum fyrirtækjum síðan veittur réttur til að nýta þessa auðlind og versla með þann rétt. Aðgangurinn að því er af hálfu stjórnvalda takmarkaður með úthlutun veiðileyfa. Þess vegna finnst mér alveg koma til greina að taka upp á Alþingi sameiginlega athugun okkar allra á því hvort rétt sé að þeir sem fá að nýta þessa sameiginlegu auðlind, eða aðrar sameiginlegar auðlindir, greiði fyrir það ákveðið gjald. Ég hef satt að segja aldrei skilið hitann í þeirri umræðu, af hverju þetta er svona mikið tilfinningamál eða svona mikið átakamál. Mér hefur að mörgu leyti fundist sjálfsagt réttlætismál að það væri gert.

Vandinn við umræðuna hefur hins vegar verið sá að hún hefur verið beinn fylgifiskur umræðunnar um kvótakerfið og með hvaða aðferðum ætti að ákveða hverjir veiddu þá stofna sem hér er ákveðið að veiða. Þetta kemur t.d. fram í greinargerðinni á bls. 2, þar sem sagt er að ef tekin væri upp sú regla að allur afli færi um fiskmarkaði, þá væri þetta vandamál úr sögunni. Ég sé ekki hvernig hægt er að færa rök að því. Eru flm. tillögunnar virkilega að segja að ef í staðinn fyrir kvótakerfið væri ákveðið að allur afli ætti að fara um fiskmarkaði, þá þyrfti þar með ekki að leggja á veiðileyfagjald? Því er ég algjörlega ósammála. Ef almenn rök eru fyrir því að leggja á veiðileyfagjald, þá eiga þau ekkert síður við þó að afli fari um fiskmarkaði.

Eins er talað um að veiðileyfagjaldið verði leið til sveiflujöfnunar í sjávarútvegi. Það er allt annar þáttur, hvernig við ætlum að fást við sveiflujöfnun í sjávarútvegi er almennt hagfræðilegt vandamál og jafnframt rekstrarvandamál fyrir atvinnugreinar. Það hefur ekkert með grundvdallarafstöðuna um afnotagjald af sameiginlegri auðlind að gera. Þess vegna finnst mér pínulítið miður að hv. þingmenn, ágætir flutningsmenn þessarar tillögu, hafa kosið að blanda svona mörgu inn í þetta mál, sem ég held að standi í vegi fyrir því að hér geti farið fram eðlileg og sjálfsögð athugun á því hvort veiðileyfagjald í einhverri mynd sé tekið upp.

Ég vildi, virðulegi forseti, lýsa þessum sjónarmiðum í mjög stuttu máli. Ég er reiðubúinn til þess fyrir mitt leyti að taka þátt í því að reyna að móta einhvers konar afgreiðslu þingsins á athugun á veiðileyfagjaldi, en þá finnst mér að það þurfi að hugsa og rökstyðja þá vinnu betur en gert er í þessari greinargerð.