Veiðileyfagjald

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 13:59:25 (1012)

1995-11-17 13:59:25# 120. lþ. 34.9 fundur 30. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[13:59]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefði sannarlega verið til hagræðis í umræðunni og einföldunar ef hæstv. ráðherra hefði lesið tillöguna og greinargerðina öllu betur en hann hefur gert. Tillagan fjallar um skipan nefndar til að fara yfir þessi mál og í greinargerðinni er bent á nokkrar aðferðir við gjaldtöku. Síðan eru reifaðar hugmyndir um ráðstöfun gjaldsins. Þær hugmyndir sem bent er á í greinargerðinni segja ekkert til um það hverjar einkaskoðanir flm. eða annarra kunna að vera á niðurstöðunni. Það mun koma í ljós síðar.

Því sem ég vildi kannski fyrst og fremst svara var sú ásökun hæstv. sjútvrh. í garð okkar sem höfum tekið þátt í þessari umræðu að við værum að notfæra okkur ákveðna erfiðleika í fiskveiðistjórnunarkerfinu til þess að koma fram með tillögu um veiðileyfagjald. Þar tiltók hann frákast á fiski. Þetta byggir á algerum misskilningi og það er leitt ef menn hafa talað svo óljóst að sjútvrh. leyfir sér að álykta svo. Hér hafa menn talað um tvö þau atriði sem helst eru gagnrýnd í umræðu fólks um núverandi kvótakerfi. Það er í fyrsta lagi frákast á fiski og ég tók fram að það mál tengdist ekki einu sinni kvótakerfinu sérstaklega og þyrfti sérstakrar meðhöndlunar við. Hins vegar er það óréttlæti sem menn telja að felist í því að aðilar geti selt eða leigt þann fiskveiðirétt sem þeim er úthlutað af hálfu ríkisins án gjalds. Það er málið sem verið er að svara með þessari tillögu.