Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 16:16:04 (1048)

1995-11-17 16:16:04# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[16:16]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það var ekki fyrr en í seinni ræðunni sem hv. frummælandi spurði þá sem hér stendur einhverra spurninga. Hann spurði fyrst og fremst hæstv. fjmrh. og ég svara ekki fyrir hann, einungis fyrir mig. Í seinni ræðunni komu fram spurningar frá honum og ein þeirra svolítið merkileg. Hann leggur fram þáltill. á þskj. 167 um 11 atriði er varða nýframkvæmdir og framkvæmdir almennt á sviði heilbrigðismála, en spyr svo: Af hverju er ekki í mínum tillögum Fossvogur og af hverju er ekki í mínum tillögum Barnaspítali Hringsins? Hann spyr mig að því. Hann hlýtur sjálfur að hafa raðað þessu upp í forgangsverkefni og ég spyr líka: Hefur hann engar áhyggjur af heilsugæslunni í Garðabæ eða Hafnarfirði eða Mosfellsbæ? Það vill svo til að heilsugæslan í Mosfellsbæ er í mjög miklu húsnæðishraki einmitt um þessar mundir. Það kemur kannski næst að hann kemur hér upp aftur og spyr: Hvers vegna er þetta ekki í mínum tillögum? Þessi seinni ræða hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar var mjög sérkennileg.

Það er enginn vandi að skrifa undir samninga. Það er létt verk. En stundum er erfiðara að standa við þá. Þess vegna held ég að menn ættu að fara varlega í að skrifa undir samninga vegna þess að hver einasti samningur um nýja framkvæmd kallar á nýtt rekstrarfé. 49 milljarðar eru áætlaðir til heilbrigðis- og tryggingamála á næsta ári. Innan þess ramma hefur heilbrrn. er ekki mikið svigrúm og mig mundi langa til að heyra tillögur hv. þm. varðandi t.d. auknar lántökur, aukna skattheimtu. Ég hef ekki heyrt nokkra einustu tillögu um minnkun rekstrarfjár til einstakra framkvæmda. Ég hef ekki heyrt þær. En ég vil taka undir það sem hefur fram komið hjá þeim sem tala um að verksamningar eigi að standa. Við eigum að klára þær framkvæmdir sem við erum í áður en við hefjumst handa með aðrar. Og það var rétt sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar að þegar hafist er handa um framkvæmd er mikilvægt að sjá fyrir endann á henni. Ég tek undir það.

Hvernig eru þessir samningar varðandi Sjúkrahús Suðurnesja? Er séð fyrir endann á framkvæmdunum? Það eru 130 millj. áætlaðar til framkvæmda sem kosta 400 millj. Það er vandamálið. Ef við tölum um Fáskrúðsfjörð, þá eru ætlaðar 15 millj. til framkvæmdanna á þessu ári í útboð sem kosta 40 millj., heildarkostnaður er um 100 millj. Þegar reksturinn fer í gang kostar hann um 70 millj. Í Keflavík kostar hann 250 millj. Við þurfum að fjármagna dæmið, það er einfalt mál.

Ég var líka spurð að því hvort það væri verið að rifta samningum eða hv. þm. Guðmundur Árni spurði hvort ég væri sammála fjmrh. að standa við samninga. Ég hef aldrei talað um að rifta samningum en ég hef talað um að fresta framkvæmdum á meðan hlutirnir eru betur rannsakaðir og ég held að það sé hollt fyrir alla.