Síldarsamningar við Noreg

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 15:57:30 (1107)

1995-11-20 15:57:30# 120. lþ. 36.91 fundur 91#B síldarsamningar við Noreg# (umræður utan dagskrár), ÓHann
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[15:57]

Ólafur Hannibalsson:

Herra forseti. Þau tíðindi sem hafa gerst í þessum málum varðandi síldveiðarnar og óbilgirni Norðmanna krefjast þess að við gefum Norðmönnum strax til kynna að við munum ekki sætta okkur við þessa framkomu. En þetta vekur líka upp spurningar um okkar stefnu í þessum málum. Ef mig rekur rétt minni til um hvernig staðið var að veiðunum á sl. vori þá var það þannig að Íslendingar og Færeyingar komu sér saman um ákveðna hlutdeild úr stofninum og veiddu það magn aðallega innan færeysku lögsögunnar.

Nú er það svo með síldina eins og allir vita að hún er duttlungafull og gengur ekki eftir föstum brautum eins og reikistjörnurnar heldur getur það verið undir mörgu komið hvort hún kemur inn í okkar lögsögu t.d. eða dvelst í færeysku lögsögunni eða leitar lengra.

Ef ég man rétt þá var það þannig á sl. vori að skipin voru hvað eftir annað stöðvuð frá því að veiða bæði í síldarsmugunni, sem er alþjóðlegt hafsvæði, og einnig frá því að elta síldina inn í lögsögu Jan Mayen. Sjálfur hef ég ekki séð að neitt sé því til fyrirstöðu að Íslendingar fari á eftir síldinni inn í lögsögu Jan Mayen. Mig minnir að það sé þannig að við höfum ekki aðra samninga við Norðmenn um Jan Mayen en það sem snertir loðnu og ég vil beina þeirri fyrirspurn til sjútvrh. og biðja hann um að svara því hér: Er nokkuð því til fyrirstöðu að Íslendingar, ef svo vill verkast, elti síldina og taki hana í lögsögu Jan Mayen og hafa Norðmenn þar nokkra samninga sem við höfum gert sem hindri það?