Sveitarstjórnarlög

Mánudaginn 20. nóvember 1995, kl. 16:13:42 (1113)

1995-11-20 16:13:42# 120. lþ. 36.6 fundur 126. mál: #A sveitarstjórnarlög# (atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur


[16:13]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram strax við 2. umr. málsins að þingflokkur Þjóðvaka mun greiða því frv. atkvæði sem hér liggur fyrir varðandi breytingar eða nýtt ákvæði til bráðabirgða við sveitarstjórnarlögin. Sú hefur orðið niðurstaða þingflokksins þótt við teljum að löggjafinn eigi ekki að bregðast við beiðnum einstakra sveitarfélaga um undanþágu frá lögum, eða bráðabirgðaákvæði í lögunum vegna sérstakra aðstæðna, og einnig þrátt fyrir það að við hefðum gjarnan viljað sjá öðruvísi tekið á þessum málum. En þar sem það hefur komið fram að umræddar sveitarstjórnir eru allar sammála um þessa málsmeðferð og einnig hitt, að knúið er á um að sú sameining, eða sú atkvæðagreiðsla um sameiningu, sem fram á að fara geti orðið sem fyrst, þá hefur það orðið niðurstaða okkar að greiða þessari breytingu atkvæði.

[16:15]

Það er hins vegar svo, virðulegi forseti, að okkur sýnist að það þurfi að endurskoða þann kafla sveitarstjórnarlaganna sem fjallar um stækkun sveitarfélaga. Það er nokkuð ljóst að 109. gr. sveitarstjórnarlaganna hefur ekki dugað. Það sjáum við best á því að þegar sú hrina varð sem farið var í varðandi atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga haustið 1993 þurfti að gera það með bráðabirgðaákvæði í lögunum. Nú er enn farið af stað með sambærilegt bráðabirgðaákvæði og það hlýtur, virðulegi forseti, að segja okkur að það þurfi að taka á þessum málum í heild sinni vegna þess að við þetta verður ekki unað.

Það er nokkuð ljóst að hér þarf leiðsögn löggjafans. Ég sagði áðan að við gætum ekki æ ofan í æ brugðist við þeim aðstæðum sem upp kunna að koma og löggjafinn þarf að vera með ákveðna línu í þessu máli. Menn þurfa að hafa skoðun og stefnu í málefnum sveitarfélaganna, ekki síst varðandi hugsanlega sameiningu þeirra og þá þurfa menn að hafa áræði til að breyta lögunum í þá veru. Að okkar mati er kominn tími til að fjalla af alvöru um sameiningu sveitarfélaga. Það liggur fyrir á næsta ári að farið verður í að færa sveitarfélögunum mjög viðamikið verkefni sem er rekstur og öll umsjá grunnskólans. Talað hefur verið um fleiri verkefni, svo sem heilsugæslu, málefni fatlaðra og þau reynslusveitarfélög sem eru að fara af stað munu einmitt annast þau verkefni. Það er ljóst að samstarf sveitarfélaga á ýmsum sviðum vex ár frá ári og vegna erfiðleika í atvinnumálum, ekki hvað síst, er mjög nauðsynlegt að menn horfi til atvinnusvæða og reyni að hefja sig yfir þau þröngu sveitarfélagamörk sem atvinnurekstri eru í raun víða búin sem og starfsemi verkalýðsfélaga. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að farið verði í alvarlega umræðu um breytingar á þessum kafla sveitarstjórnarlaganna. Og í trausti þess að ekki verði oftar um það að ræða að inn á þingið komi frv. til bráðabirgðaákvæða í lögunum vegna þess að einstöku sveitarfélög eða sveitarfélagahópar knýja á um það mun þingflokkur Þjóðvaka styðja það frv. sem hér liggur fyrir og þar með álit meira hluta félmn.