Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:35:03 (1138)

1995-11-21 15:35:03# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:35]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er tekið á því í frv. og ég held að hæstv. ráðherra hafi líka komið inn á það í sinni framsögu, að það er gert ráð fyrir því í greinargerð að heilbrigðisstofnanir, sem munu fá leyfi til að framkvæma glasafrjóvgunarmeðferð, verði að gæta þess sérstaklega við eggfrumugjöf að nafnleynd verði virt. Væntanlega hlýtur þetta því að velta á þeim heilbrigðisstofnunum sem taka þetta að sér. Án þess að ég ætli að fara að lýsa yfir vantrausti á heilbrigðisstofnanir í landinu, þá vitum við að það hefur meira að segja gerst að það hefur kvisast út af spítala að menn deyja áður en þeir eiginlega deyja. Ég tel því vægast sagt mjög varhugavert að fara þessa leið. Og ef það eru viðurkennd mannréttindi að eiga rétt á að fá að vita um sinn líffræðilega uppruna, hvaða rök eru þá fyrir því að undanskilja þessi börn? Er þetta ekki líka nokkuð stór ákvörðun fyrir þann sem gefur frumurnar? Hann getur jafnvel gert ráð fyrir því að það dúkki upp hjá honum krakki eftir 16 ár sem vilji fá að sjá hann. Ég man reyndar ekki hvort það er leiðin sem menn eru að velta fyrir sér að fara hér, en sú leið hefur a.m.k. verið farin í öðrum löndum að heimila jafnvel upplýsingar um hæð, líkamsbyggingu, litarhátt og annað slíkt, en ekki hver einstaklingurinn er. Þannig að meginástæðan fyrir nafnleyndinni er sú að vernda þann sem gefur. Það er ekki verið að hugsa um hagsmuni þess sem verður til vegna þessarar gjafar. Ég viðurkenni að þetta er álitamál, en ég er langt í frá sannfærð um að þetta sé rétt leið með tilliti til þess sem ég tel vera grundvallarmannréttindi, að fá að vita um uppruna sinn þegar maður hefur aldur og þroska til.