Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 21. nóvember 1995, kl. 15:37:14 (1139)

1995-11-21 15:37:14# 120. lþ. 38.2 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur


[15:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með það að þetta frv. er loksins komið fram á hinu háa Alþingi. Eins og segir í greinargerð og fram kom hjá hæstv. dómsmrh. hefur Alþingi tvisvar sinnum samþykkt þingsályktanir um tæknifrjóvganir, fyrst árið 1986 og síðan árið 1989. Í síðara skiptið samþykkti Alþingi þingsályktun sem Sigríður Lillý Baldursdóttir, þingkona Kvennalistans, var 1. flm. að. Sú tillaga hljómaði orðrétt svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja hið fyrsta fyrir Alþingi frv. til laga um tæknifrjóvganir, m.a. að því er varðar réttarstöðu og tryggingamál þeirra sem hlut eiga að máli.``

Þetta frv. hefur nú loksins litið dagsins ljós og má því segja að það sé búið að eiga 5--8 ára meðgöngutíma. Það er kannski ekki óeðlilegt að svona viðkvæmt mál eigi sér langan meðgöngutíma. Þetta er mjög vandmeðfarið og siðferðilega krefjandi mál og mikilvægt að það fái vandaða umfjöllun í þinginu. Ég vil sérstaklega láta í ljós ánægju mína með þá ítarlegu greinargerð sem fylgir með frv. þar sem í raun er tekið á langflestum siðferðilegum álitamálum sem tengjast þessu máli. Ég tel að þingið sé mun betur í stakk búið til þess að ræða málið vegna þessarar skýru greinargerðar.

Kvennahreyfingin út um allan heim hefur á undanförnum áratug fylgst mjög grannt með því hvernig mismunandi lönd hafa tekið á þessari tækni og vissulega munum við kvennalistakonur fylgja þessu máli mjög fast eftir.

Við 1. umr. langar mig aðeins að segja nokkur orð um frv., en að sjálfsögðu munum við ræða það nánar í hv. allshn. Ef á heildina er litið virðist mér vera farið frekar varlega í sakirnar og það sé fyrst og fremst verið að lögleiða þá starfsemi sem nú tíðkast. Eitt umdeildasta málið hjá kvennahreyfingunni hefur í gegnum tíðina, eða sl. 10 ár, verið svokölluð staðgöngumæðrun. Með því hugtaki er átt við tæknifrjóvganir á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgöngu að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Þetta er kölluð leigumæðrun, ef til koma greiðslur fyrir. Samkvæmt þessu frv. er staðgöngumæðrun óheimil og því fagna ég mjög. Ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði og rétt sé tekið á því í frv.

Annað umdeilt atriði er hvort heimilt skuli að gefa egg eða kynfrumur kvenna. Samkvæmt þessu frv., eins og kom fram hjá fyrri ræðumanni, er það heimilt og mér finnst það mjög eðlilegt, með þeim rökum sem koma fram í greinargerð, að hjónum sé ekki mismunað eftir því hvort það er ófrjósemi kvenna eða karla sem veldur barnleysi. Einhleypum konum er ekki heimilt að fá tæknifrjóvgun samkvæmt þessu frv. Það kemur kannski ekki á óvart miðað við þá hefðbundnu skoðun að börn eigi bæði föður og móður. Í reynd eru þó einstæðar mæður á Íslandi mjög margar og samkvæmt íslenskum lögum eru mæður ekki skyldugar til að feðra börn sín. Í ljósi þess finnst mér ekki sjálfgefið að þessi háttur verði hafður á og mæli með að það verði skoðað gaumgæfilega í nefnd. Það, að neita ógiftum konum um tæknifrjóvgun, má líka skoða sem mismunun gagnvart samkynhneigðum konum og mundi þá vera enn eitt dæmið um skerta réttarstöðu þeirra.

Geymsla fósturvísa er heimil samkvæmt 9. gr. frv. og ég tel ráðlegt að athuga mjög vel hvort þau ákvæði, sem þar er getið um, eru of rúm. Eins og flestir vita, verða oft til viðbótarfósturvísar þegar glasafrjóvganir koma til og það getur verið mjög viðkvæmt mál hvernig farið er með geymslu á þeim.

Ég fagna sértaklega þeirri varkárni sem lögð er til í 11. og 12. gr. frv. um rannsóknir á fósturvísum. Þar er tekið með beinum hætti fyrir ýmsar hrollvekjur sem aðallega koma fram í vísindaskáldsögum, eins og einræktun o.fl. Þetta er skynsamlegt að mínu mati og algjörlega nauðsynlegt þar sem tæknin er komin langt út fyrir þau mörk sem geta talist viðunandi frá siðfræðilegu sjónarmiði.

Varðandi feðrun barna sem hafa orðið til við tæknisæðingu, þá kemur fram í greinargerð að í Svíþjóð og í Danmörku eru farnar mismunandi leiðir. T.d. er hægt að vita hver á viðkomandi sæði úr sæðisbanka í Svíþjóð, en það er óheimilt í Danmörku. Hér hefur það tíðkast að nota danska sæðisbanka þar sem engin nöfn koma fram. Eins og kom fram hjá hv. ræðumanni, Bryndísi Hlöðversdóttur, tekur sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um mannréttindi ekki beint afstöðu til þess með hvorum hættinum sé betra að hafa þetta. Ég tel rétt að þetta mál verði skoðað betur. Ég er ekki alveg sannfærð um, frekar en hún, að þetta sé rétt skref sem hér er mælt með. En ég er ekki heldur sannfærð um hið gagnstæða.

Að lokum má nefna að samkvæmt þessu frv. fær viðkomandi læknir mjög mikið vald, t.d. í sambandi við val á kynfrumum. Ég tel rétt að skoða þann valkost betur, sem ræddur er í greinargerð, að þetta vald verði frekar hjá sérstakri nefnd. En það er vissulega rétt að hér er um mjög persónuleg og viðkvæm mál að ræða og hugsanlegt að fólki líði betur með það að þetta sé í höndum eins læknis en hjá heilli nefnd.

Ég vil að lokum ítreka að þetta málefni er mjög mikilvægt og fagna enn og aftur að þetta frv. er fram komið. Ég ítreka að að þetta er siðferðilega krefjandi mál og mjög vandmeðfarið. Ég vona því að það fái vandaða meðferð í nefnd og þannig að heilbrigðiskerfi okkar geti áfram sem hingað til hjálpað fólki sem á við ófrjósemi að stríða til að eignast börn og að þau börn sem fæðast eftir tæknifrjóvgun og foreldrar þeirra hafi sem skýrasta réttarstöðu.