Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:05:13 (1233)

1995-11-23 11:05:13# 120. lþ. 40.3 fundur 98#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1994# (munnl. skýrsla), SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:05]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ábendingu. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. að félmn. hafði þarna frumkvæði að því að taka fyrir ákveðna skýrslu. Ég er þeirrar skoðunar að varðandi meðferð á þessum skýrslum komi í raun og veru tvennt til greina. Bæði það að þetta fari til fagnefnda eftir ákveðnum farvegi, en líka að þetta fari til sérnefndar sem taki fyrir þessi mál.

Síðan vil ég minnast á það sem hv. þm. nefndi, sem mér finnst aðeins örla á í seinni tíð, og það er að fagnefndir líti svo á að forsætisnefnd sé yfirnefnd fagnefnda. Það tel ég að hún sé ekki. Ég tel að í þessu máli hafi nefndirnar sjálfstæði til þess að ákveða sína starfshætti. Og ég hef orðið var við þetta, t.d. í sambandi við spurninguna um það hvort flokkar eigi áheyrnaraðild að nefndum. Þar er forsætisnefnd spurð. Auðvitað getur forsætisnefnd haft almenna skoðun á þessu máli, en hún ræður því ekki fyrir hönd nefndarinnar. Það er í raun og veru pólitískt atriði hvort þetta er samræmt eða ekki. Það er svo annað mál. En samkvæmt þingsköpum er nefndin sjálfstæður corpus í þessu efni og það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga. Með að sjálfsögðu fullri virðingu fyrir forsætisnefnd, þá liggur málið bara svona.