Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 11:52:04 (1242)

1995-11-23 11:52:04# 120. lþ. 40.4 fundur 97#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1994# (munnl. skýrsla), VK
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[11:52]

Viktor B. Kjartansson:

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi gera að umtalsefni í tilefni skýrslu umboðsmanns Alþingis. Við fulltrúar í allshn. höfðum tækifæri til að hitta umboðsmann og ræða við hann um skýrsluna og hans viðhorf til þeirra mála sem þar koma fram. Og ég tel ástæðu til þess að nefna nokkur atriði sem þar koma fram.

Í fyrsta lagi vekur það athygli, eins og aðrir hv. þm. hafa nefnt, hversu fjöldi mála hefur aukist á milli ára, sérstaklega 1993 og 1994. Menn hafa velt því fyrir sér hvað skýrði það. Það kom fram að hugsanleg skýring væri meiri Evrópusamvinna og lög og reglur sem koma til setningar á Alþingi í kjölfar aukinnar Evrópusamvinnu. Þá má gera ráð fyrir að slíkt muni aukast í framtíðinni.

Það kom einnig fram að sú mikla kynning og umræða sem umboðsmaður hefur fengið á síðustu árum hefur óneitanlega vakið athygli á rétti borgaranna til að leita til umboðsmanns, telji þeir á sér brotið. Það hlýtur að vera af hinu góða að sjá að borgarnir nýta sér þessa leið í auknum mæli.

Það vakti líka athygli hversu hátt hlutfall íbúa leitar til umboðsmanns hér á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd. Ég held að það skýrist að hluta til af þessu sama, þetta er tiltölulega nýtt embætti, það er mikið um nýja og umdeilda löggjöf sem tekið hefur gildi og á síðustu árum hefur kynning og umræða um umboðsmann farið mjög vaxandi.

Það eru nokkur atriði sem koma fram í skýrslunni sem ég tel ástæðu til þess að nefna, sérstaklega varðandi þjónustugjöld. Það eykst stöðugt að gerðar séu athugasemdir við umboðsmann vegna þeirra þjónustugjalda sem hafa verið innheimt, bæði hjá ríki og öðrum opinberum stofnunum. Ég, sem mikill stuðningsmaður þjónustugjalda, tel að það sé ástæða til þess að fara í gegnum þessi mál og tryggja að ekki sé verið að innheimta hærri þjónustugjöld en raunverulegur kostnaður við þjónustuna er. Ég held að það sé mjög mikilvægt, vilji menn halda þessari stefnu til streitu, að tryggja að eftir því sé farið að raunverulegur kostnaður sé sá kostnaður sem endurspeglist í þjónustugjöldunum. Um leið og menn fara að stilla þessum gjöldum óeðlilega hátt, skilar það sér í því að tiltrú manna á þessari leið minnkar og það verður í auknum mæli horfið frá því að beita þessari aðferð, þ.e. innheimta gjöld fyrir þá þjónustu sem raunverulega er veitt.

Það kemur einnig fram í skýrslunni varðandi skatta að athugasemdir við skattheimtu hins opinbera hafa aukist. Ég held að það endurspegli að það hefur verið hringlað of mikið með þessa hluti hjá ríkinu. Of margar breytingar hafa verið gerðar á ýmsum lögum og reglum um skatta á undanförnum árum sem skila sér auðvitað í því að borgararnir telja í auknum mæli á sér brotið.

Það kom einnig fram í þessum umræðum að hugmyndir eru uppi um að fjölga umboðsmönnum víðs vegar í stjórnkerfinu. Það hafa komið fram hugmyndir um umboðsmann neytenda, umboðsmann kvenna, umboðsmann umhverfis, umboðsmann barna, sem reyndar hefur tekið til starfa. Það fóru fram töluverðar umræður um hvort þetta væri æskileg þróun. Það hlýtur að sjálfsögðu að teljast gott að menn geti leitað til aðila í stjórnkerfinu sem bera ábyrgð á því að fylgja eftir og gera athugasemdir við hið opinbera á ýmsum sviðum. En það hlýtur að draga úr vægi umboðsmanns Alþingis ef umboðsmenn á hinum ýmsu sviðum taka til starfa. Það var rætt um að umboðsmaður Alþingis héldi titlinum umboðsmaður, en í öðrum tilvikum yrði talað um talsmann, t.d. talsmann barna eða talsmann neytenda, til að gera skýrari skil á milli umboðsmanns Alþingis og annarra slíkra aðila. Umboðsmaður starfar á mjög breiðum grundvelli. Hann hefur t.d. með að gera allt hið opinbera kerfi og alla lagasetningu. Það hlýtur því að skekkja svolítið myndina ef umboðsmenn eru komnir víðs vegar í stjórnkerfinu, sem hafa ekki eins víðtækt valdsvið. Og ég er sammála því að ég tel að það ætti að spara notkunina á orðinu ,,umboðsmaður`` og tala þá frekar um talsmann.

Það kom einnig fram sú spurning hvort rétt væri að umboðsmaður yrði í auknum mæli umsagnaraðili um lög frá Alþingi. Ég held að það sé ótækt. Ég tel mjög óeðlilegt að sami aðili taki þátt í að semja lögin og koma með umsagnir um þau lög sem sett eru á Alþingi, og lendi svo í því síðar að gagnrýna eða gera athugasemdir við lagasetninguna eða framkvæmd hennar. Þess vegna tel ég að það sé ekki rétt að umboðsmaður verði sérstakur umsagnaraðili um flest þau lög sem samþykkt verða á Alþingi.

Það kom einnig fram varðandi sveitarfélög, hvort rétt væri að sveitarfélög kæmu undir starfssvið umboðsmanns. Ég held að það sé varhugaverð þróun að taka það stjórnsýslustig einnig undir umboðsmanninn. Þar sem heimild er víða í lagafrumvörpum til að gera athugasemdir við félmrh., tel ég eðlilegra að hafa sviðið alveg skýrt og menn geti þá leitað til umboðsmanns vegna þess að þeir hafi ekki fengið úrlausn sinna mála hjá ráðuneytinu.

Að lokum þetta: Ég held að umboðsmaður sé mjög þarft embætti og sé mjög mikið framfaraskref í íslenskri stjórnsýslu. Það sýnir sig best í því hversu aukin ásókn hefur verið í að leita til umboðsmanns eftir úrlausnum á hinum ýmsu málum.