Viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík

Fimmtudaginn 23. nóvember 1995, kl. 18:53:52 (1275)

1995-11-23 18:53:52# 120. lþ. 40.7 fundur 171. mál: #A viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur


[18:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því í þessu andsvari að það eru nokkrar spurningar sem hæstv. ráðherra hefur ekki svarað og það varðar það hvaða áhrif samningurinn hefur varðandi verð til almenningsveitna sem ég spurði um. Ég spurði um hvort einhver áform væru uppi um að fresta opinberum framkvæmdum eins og fram kemur í áliti Þjóðhagsstofnunar að hún telur að sé rétt að gera. Ég spurði um skattalega umhverfið, hvort það mætti túlka þennan samning þannig að það væri raunverulega verið að frysta ef samningsaðilinn kýs svo það skattaumhverfi sem við höfum út allan samningstímann jafnvel þó að skattar hækkuðu almennt á fyrirtæki. Ég spurði líka um rofna taxta. Ráðherrann veit hvað ég er að tala um. Og ég spurði um aðföngin líka, þessa 9 milljarða. Hvaða skatttekjur hefur ríkissjóður af þeim? Hafa verið gerðir einhverjir sérstakir samningar um sérstök kjör til þeirra varðandi þessi aðföng? Var ekki hægt að fá meira af þessum aðföngum inn í innlend umsvif? Svo að ég veki athygli á öllum þeim spurningum sem ráðherrann svaraði ekki þá spurði ég um samningana sem hæstv. ráðherra hefur undirirtað, um hönnun, byggingu og rekstur. Þetta eru tveir samningar. Ég spurði um kostnaðinn við þá, ég spurði um innihaldið og hver borgaði kostnaðinn og hverjir hefðu fengið þessa samninga.