Jöfnun atkvæðisréttar

Mánudaginn 27. nóvember 1995, kl. 19:04:41 (1336)

1995-11-27 19:04:41# 120. lþ. 41.9 fundur 188. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur


[19:04]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. nefndi að menn hefðu vísvitandi farið með rangt mál vegna þess að þeir hefðu ekki viðurkennt að hver einstaklingur sem hefði kosningarrétt hefði eitt atkvæði. Að sjálfsögðu gildir sú regla enda gengur tillagan ekki út á það að taka sérstaklega á því að hver einstaklingur fái eitt atkvæði heldur gengur hún út á það að jafna atkvæðisréttinn og jafna vægi atkvæðanna. Að sjálfsögðu gengur tillagan út á það. Ég lít því frekar svo á að hér sé verið að snúa út úr málinu en að koma að kjarna málsins.

Hv. þm. spurði einnig: Hvaða vægi eiga menn við? Ég held að kannski sé ástæða til að skoða hvaða vægi það er. Vægið snýst um að menn hafi jafnan rétt til þess að kjósa löggjafarsamkomu sína þannig að löggjafarsamkoman endurspegli réttlátlega þjóðina sem kýs þá löggjafarsamkomu og að í henni séu kjörnir þingmenn í réttu hlutfalli við þá sem á bak við þá standa. Það er grundvallaratriðið sem málið snýst um. Ef menn telja að það sé eðlilegt að einstaklingur sem flytur sig til eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gerði skuli hann missa þessi áhrif á löggjafarsamkomunni sjá menn náttúrlega óréttlætið sem í þessu felst. Svo talaði hv. þm. um að staðan væri slæm út á landsbyggðinni. Ég held að hún sé ekki síst komin til út af því að þau kjördæmi sem eru stærri en t.d. Vestfirðir og eru einnig landsbyggðarkjördæmi hafi kannski misnotað sér ójafnvægi atkvæða til að skapa það ástand sem nú er. Ég sé ekki að það muni bæta ástandið að auka misvægið meðal landsbyggðarkjördæmanna.