Réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga

Þriðjudaginn 28. nóvember 1995, kl. 18:38:45 (1399)

1995-11-28 18:38:45# 120. lþ. 42.13 fundur 168. mál: #A réttindi og skyldur ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga einstaklinga# þál., Flm. DSigf
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur


[18:38]

Flm. (Drífa Sigfúsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá umfjöllun sem þáltill. hefur fengið og ekki síst hv. 5. þm. Vesturl. sem vakti athygli á því að þáltill. um svipað efni hafa áður verið fluttar. Ég fagna því og ég tek undir að það er alveg sama hvaðan hlutirnir koma svo framarlega sem neytendur eignast þennan rétt sem þeir margir hverjir hafa lengi óskað eftir að fá. Því miður er allt of algengt að fólk fái ekki réttar upplýsingar. Það er ekki hægt að treysta fólki sem er svo illa statt fjárhagslega að það sér enga leið út úr skuldum sínum, því þá grípur það oft til örþrifaráða. Það er því ákaflega mikilvægt að fyrir hendi séu góðar og réttlátar reglur um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna. Til dæmis finnast bankar í Svíþjóð sem hafa frá því þeir voru stofnaðir aldrei lánað út öðruvísi en gegn greiðsluáætlun og ef ábyrgðarmanna er krafist fá þeir upplýsingar um stöðu skuldara. Mér finnst það sanngjarnt og ég get ekki séð að ábyrgð bankans sé minni. Því er nú þannig farið að þeir sem leita til lánastofnana telja að þá séu þeir að leita til fagaðila á fjármálasviði. Ég er ekki að segja að skuldari eigi að vera sviptur ábyrgð heldur að allir aðilar skuli fá sem bestar upplýsingar, en það er besta niðurstaðan fyrir heimilin í landinu.