Mengun af brennisteinssamböndum

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:11:52 (1424)

1995-11-29 14:11:52# 120. lþ. 43.4 fundur 78. mál: #A mengun af brennisteinssamböndum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:11]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það kom í ljós að það sem ég hafði fengið upplýsingar um er rétt. Ísland hefur í engu fylgt eftir aðild sinni að þessum samningi fyrr en þá nú að það er til athugunar í ráðuneytinu að tilnefna framkvæmdaraðila samkvæmt samningnum. Ég hlýt að gagnrýna að svona er staðið að málum og ég tel ekki viðhlítandi að við sýnum eingöngu lit í sambandi við ákvæði alþjóðasamninga, sem við höfum gerst aðilar að, þegar þau varða okkar hagsmuni mikið að mati stjórnvalda, eins og í sambandi við þrávirk, lífræn efni sem Íslendingar hafa með réttu gefið gaum og ágætt starf hefur verið unnið af hálfu íslenskra stjórnvalda að því leyti. En menn hljóta að sjá að það er ákveðið samhengi í þessum málum á alþjóðavettvangi. Við getum ekki vænst þess að fá stuðning við okkar kröfur sem varða okkar hagsmuni sérstaklega ef við drögum fæturna á öðrum sviðum þar sem við metum það svo að ástandið sé kannski ekki eins alvarlegt fyrir okkur. En allt er þetta þó samtengt umhverfi jarðar og þess vegna finnst mér að hér þurfi sannarlega að gera bragarbót, enda kom fram að Hollustuvernd ríkisins hefur lagt til að skoðað verði vandlega að undirrita bókun frá 1985. Eru það ekki í raun meðmæli með því, virðulegur hæstv. ráðherra, þegar sérfræðistofnunin kemst þannig að orði í erindi til ráðuneytisins?

Eins og ég gat um erum við hér að auka við mengun af völdum brennisteins og ég held að menn þurfi að gæta sín að fullyrða ekki um of að þar sé ekki um skaðlega mengun að ræða. Auðvitað þarf að athuga með alla þá þætti sem valda þarna mengun og bæta í mengun andrúmsloftsins í sambandi við brennistein sem og önnur efni, en samningurinn varðar ýmis fleiri efni heldur en brennistein eins og fram hefur komið.