Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:17:40 (1426)

1995-11-29 14:17:40# 120. lþ. 43.5 fundur 170. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:17]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til umhvrn. um varnir gegn mengun sjávar. Fyrirspurnin er ekki lögð fram vegna þess að ég telji að efnisinnihaldið sé stærsta vandamálið í mengunarmálum á landi okkar. Að mörgu leyti hefur verið staðið vel að lagasetningu og reglugerðarsetningu um mengunarmál og má kannski segja að frekar vanti á að þeim sé fylgt nægilega eftir. Annars vegar er um að ræða mengunarhlið máls en hins vegar þá stefnu sem hvetur til endurvinnslu og margir þekkja undir kjörorðinu endurnota, endurvinna og nota minna. Pappír er gott dæmi um þetta. Eins og menn vita hafa byggðasamlög verið stofnuð til þess að sinna endurvinnslu og mikil hugarfarsbreyting hefur í raun átt sér stað meðal almennings víða um heim og ekki síst á Íslandi í umhverfismálum. Fámenn þjóð en vel upplýst.

Ég tel að við eigum að leggja okkar af mörkum í umhverfismálum heimsins en líka að reyna að vera í fararbroddi um þau mál sem við getum. Við viljum gjarnan geta orðið hreinasta land álfunnar og við ættum að geta orðið það.

Ég hef valið að ræða um varnir gegn mengun sjávar og vil víkja að þróun alþjóðareglna hvað þetta varðar. Á undanförnum árum hafa reglur um losun úrgangsefna í sjó tekið miklum breytingum og viðhorfin um það hvað teljist skaðlegt umhverfinu hafa verið að breytast. Það hillir undir að varpi alls úrgangs í sjó nema hreinna jarðefna og lítt mengaðra dýpkunarefna verði hætt fyrir aldamót.

Ísland er aðili að alþjóðasamningum hvað þetta varðar og ná þeir samningar alllangt aftur í tímann. Í nýlegum samningi um mengunarvarnir á Norðaustur-Atlantshafi, ég held að hann sé frá september 1992 og hafi verið samþykktur í París, er gert ráð fyrir því að aðildarríkin hætti eigi síðar en 31. des. 2004 að sökkva skipsflökum og flugvélum í sjó. Við þessa samningsgerð skrifuðu umhverfsráðherrar aðildarríkjanna undir yfirlýsingu um að hætta að sökkva flugvélum og skipsflökum eins fljótt og kostur væri. Við þessu var brugðist af hálfu umhvrn. og skipaður starfshópur árið 1990 sem átti að gera tillögur um förgun úreltra skipa.

Menn vita að fjöldi skipa sem er úreltur á hverju ári er umtalsverður og nýlega var svarað fyrirspurn í þinginu frá Rannveigu Guðmundsdóttur þar sem tíundað var hversu mörg þau skip væru. Í svari sjútvrh. við þeirri fyrirspurn hve mörg skip hafi verið úrelt frá miðju ári 1994 kom fram að þau eru 234. Það eru reyndar bæði stálskip, plastbátar og trébátar en heildarfjöldinn er umtalsverður.

Nefndin sem ég vitnaði til áðan gaf frá sér skýrslu um förgun skipa þar sem ítarlega var farið ofan í allar hliðar málanna, tekinn saman fjöldi skipa, hvað yrði af þeim og hver kostnaðurinn væri við að farga þeim. Í niðurstöðum nefndarinnar er þó hvatt til þess að banna hið fyrsta að sökkva skipum í sjó hér við land. Til þess þarf að breyta ákvæðum í lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Í ljósi þessa ber ég fram fyrirspurn mína til umhvrh. og hún er svohljóðandi:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir afnámi þeirra ákvæða í lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, sem heimila ráðherra að leyfa m.a. að skipsflökum sé sökkt í sjó, í framhaldi af undirritun samnings um verndun Norðaustur-Atlantshafsins í París 1992?``