Innritunargjöld á sjúkrahús

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 17:49:17 (1465)

1995-11-29 17:49:17# 120. lþ. 44.91 fundur 105#B innritunargjöld á sjúkrahús# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur


[17:49]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur margsinnis komið til tals að taka upp einhvers konar innritunargjöld á sjúkrahúsum landsins en þau áform hafa ávallt verið kveðin niður. Á síðasta kjörtímabili beitti þáv. stjórnarandstaða sér af hörku gegn sjúklingasköttum en í þeim hópi var núv. hæstv. heilbrrh. Það er því ekki að furða að hún eigi í nokkrum vandræðum með þetta mál, enda töluverð andstaða við slíka gjaldtöku í hennar flokki. Það er skoðun okkar kvennalistakvenna að gott heilbrigðiskerfi verði fyrst og fremst rekið hér á landi með almennu skattfé enda enginn annar aðili til þess fær að standa undir þeim mikla kostnaði sem heilbrigðisþjónustunni fylgir. Þau innritunargjöld sem fyrirhugað er að leggja á sjúklinga sem leggjast inn á sjúkrahús skila sáralitlu eins og fram kom í máli ráðherra og eru aðeins brot af kostnaði við heilbrigðisþjónustuna, eða um 1,6% af heildarrekstrarkostnaði hátæknisjúkrahúsanna í Reykjavík samkvæmt frv. til fjárlaga árið 1996. En reyndar er talið fráleitt að það takist að innheimta þær u.þ.b. 180 millj. kr. sem frv. gerir ráð fyrir hjá stóru sjúkrahúsunum.

Umræðan sem hér fer fram snýst um það hvernig hægt er að ná niður beinum framlögum ríkisins til heilbrigðismála og hvort velta eigi kostnaðinum yfir á þá sjúklinga sem lagðir eru inn á sjúkrahús. Hingað til hefur gilt sú regla hér á landi að þeir sem lagðir eru inn á sjúkrahús borga ekki fyrir það sérstaklega, umfram það sem þeir þegar hafa greitt með sköttum sínum. Ef innritunargjöld verða tekin upp felst í því stefnubreyting sem bitnar á þeim sem síst skyldi. Við kvennalistakonur mótmælum áformum um innritunargjöld og bendum á að það eru aðrar leiðir færar til að ná niður kostnaði, t.d. sú að stórauka forvarnir í heilbrigðiskerfinu og draga þannig úr eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu.

Það er rétt hjá hæstv. heilbrrh. að ýmis gjöld eru innheimt af sjúklingum og þeim sem leita eftir heilbrigðisþjónustu og að þar ríkir ekkert samræmi. En það breytir ekki því að hér er um óréttláta innheimtu að ræða og ég skora á hæstv. heilbrrh. að falla frá áformum um innritunargjöld og verja þannig grundvöll hins íslenska velferðarkerfis. Enn er tími til stefnu.