Greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 18:36:35 (1484)

1995-11-29 18:36:35# 120. lþ. 45.92 fundur 106#B greiðslur úr ríkissjóði samkvæmt búvörusamningi# (aths. um störf þingsins), ÓRG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur


[18:36]

Ólafur Ragnar Grímsson:

Virðulegi forseti. Það sem hér er að gerast er það að fjmrh. og landbrh. hafa undirritað samning. Sá samningur var síðan samþykktur formlega af búnaðarþingi. Nú er meiri hluti landbn. að taka sér fyrir hendur að breyta samningnum, breyta undirrituðum samningi. Þótt einn maður, formaður Bændasamtakanna, hafi lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að sú gerð verði samþykkt, þá er það satt að segja, hv. þm., ekkert innlegg í málið vegna þess að meiri hluti landbn. er að sanna það hér að sá gerningur landbrh. og fjmrh. að beita sér fyrir því að samningurinn sé samþykktur hefur ekkert gildi. Meiri hluti landbn. er að breyta samningnum hér þrátt fyrir það að þeir sem undirrituðu hann beiti sér fyrir því að hann sé samþykktur. Landbn. hefur hafnað þeirri tillögu landbrh. og fjmrh., það er það sem hér er að gerast. Meiri hluti landbn. er að leggja til að þingið hafni þeirri tillögu hæstv. fjmrh. og landbrh. að staðfesta þann samning sem þeir gerðu. (GÁ: Örlítið breyttan.) Þess vegna er engin trygging fyrir því að búnaðarþing samþykki síðan samninginn eins og hann kemur héðan frá þinginu. Það sem hér er verið að leggja til í fyrsta sinn er að hefja samningaviðræður Alþingis og búnaðarþings. Og það er þess vegna sem ég vildi einnig fá svör hæstv. fjmrh. áður en umræðan hæfist. Ég minnist þess ekki að það hafi fyrr gerst að Alþingi hafi farið að breyta með þeim hætti sem hér á að gera samningi sem fjmrh. og landbrh. hafa undirritað og stofnað til skaðabótaskyldu í þjóðfélaginu fyrir hönd ríkisvaldsins í trausti þess að Alþingi samþykki samninginn óbreyttan.