Framleiðsla og sala á búvörum

Fimmtudaginn 30. nóvember 1995, kl. 11:49:08 (1528)

1995-11-30 11:49:08# 120. lþ. 46.5 fundur 96. mál: #A framleiðsla og sala á búvörum# (sauðfjárframleiðsla) frv., Frsm. 1. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur


[11:49]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera tvær athugasemdir við ræðu hv. þm. Hann gerði grein fyrir fyrirvaranum og flutti mál sitt vel, ekki bara hvað fyrirvarann varðar. En hann er skilningsríkari en kannski margir aðrir í landbn. Hann áttar sig á gallanum í kerfinu sem hann lýsti hér ágætlega, talaði um kerfissveiflu varðandi þann þátt þegar menn geta aukið framleiðslu og fannst þar rangt að farið. Hann hefði hins vegar ekki náð fram breytingum á því og taldi aðra kosti frv. vera þess eðlis að hann ætlar að styðja það.

Hins vegar er fyrirvarinn sem hann gerir og það með réttu það veigamikið atriði að markmið frv. geta ekki náðst. Fyrst þingmaðurinn áttaði sig á þessu, en það gera ekki allir stjórnarþingmenn, hefði verið heppilegra að hann hefði lagst gegn þessu frv. Við því er svo sem ekkert að segja, en ég vil draga sérstaklega fram mat þessa hv. þm. á þessum þætti málsins þar sem hann er grundvallaratriði í búvörusamningnum. Einmitt þessi kerfisvilla, eins og ég held að hann hafi orðað það, gerir það að verkum að við munum ekki ná neinum árangri með þennan búvörusamning.

Hitt atriðið er að gefa verðið frjálst. Það var rætt um það og það kom fram í mörgum umsögnum þegar þau mál voru til umræðu í nefndinni. Hv. þm. leiðréttir mig. Hagfræðistofnun á að hafa sagt að jafnumfangsmiklar kerfisbreytingar og gerðar voru á Nýja-Sjálandi gætu varla gerst í fljótu bragði hér, en þar var m.a. um frjálsa verðlagningi á landbúnaðarvörum að ræða. Mig minnir að Hagþjónusta landbúnaðarins hafi rætt um að ef verð yrði strax gefið frjálst, yrðu breytingarnar auðvitað miklar. Það hefur kosti og galla, en ég man ekki til þess að annar hvor þessara aðila hafi lagst gegn því að verð á búvörum yrði fyrr gefið frjálst. Og eins og ég nefndi í gær, er verðið ekki gefið frjálst vegna þess að magnið er ákveðið, en það er annað mál. Auk þess draga fjölmargar aðrar umsagnir þetta skýrt fram varðandi hina frjálsu verðlagningu.