Fjáraukalög 1995

Þriðjudaginn 05. desember 1995, kl. 16:11:20 (1618)

1995-12-05 16:11:20# 120. lþ. 53.5 fundur 44. mál: #A fjáraukalög 1995# frv., Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur


[16:11]

Frsm. minni hluta fjárln. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Það er dálítið skemmtileg staða sem kemur upp varðandi afgreiðslu fjáraukalaga. Það var verið að afgreiða fjáraukalög 1994 rétt áðan og þá kemur upp sú spaugilega staða að hv. núv. formaður fjárln. talaði fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir 1994. Hann talaði gegn fjáraukalögum á síðasta ári, 1994, það kláraðist ekki afgreiðslan þá og það má segja að það sem talað var með frv. núna 1994 hafi mælst svona 10 sm en það sem talað var gegn því á síðasta ári var u.þ.b. kílómetri. Þetta er spaugileg staða. Og núna erum við að ræða um fjáraukalagafrv. fyrir árið 1995 og þá hefur staðan breyst þannig að sá sem hér stendur var með hæstv. ríkisstjórn að hluta til á árinu og hv. formaður fjárln. var gegn ríkisstjórn að hluta til á árinu og við erum auðvitað að ræða málin að einhverju leyti út frá því. Ég ætla ekkert að fara lengra út í þessa sálma, herra forseti, en það er svolítið spaugileg staða sem getur komið upp við þessi skipti.

Ég mæli fyrir áliti minni hluta fjárln. á þskj. 281. Þau atriði sem við leggjum hvað þyngsta áherslu á varða vinnubrögð. Við teljum mjög mikilvægt að breytt verði um starfshætti, og það kemur fram að nokkru leyti í því sem hv. formaður fjárln. nefndi áðan, að fá álit Ríkisendurskoðunar á þeim frumvörpum sem við erum að fjalla um og ég vil taka undir að það er mjög gott og gagnlegt og til góðra skýringa að fá Ríkisendurskoðun að málunum. Ég vil einnig taka undir að það hefur verið mjög góður friður um vinnuna í fjárln. Menn hafa komist vel áfram með þessi mál og náð sáttum um hvernig að þessu verði staðið.

Við gagnrýnum samt að sótt er um aukafjárveitingu sem er hærri en útlit er fyrir að þörf sé á. Þetta er vert að gagnrýna og við tökum undir skoðun Ríkisendurskoðunar í því máli. Einnig að ekki er sótt eftir fjárheimild með fjárlögum þótt fyrirsjáanlegt sé að eftir verði leitað með fjáraukalögum áður en fjárlagafrv. er samþykkt.

[16:15]

Frumvarpið sem við fjöllum hér um var lagt fram skömmu fyrir síðustu kosningar en varð ekki afgreitt. Minni hlutinn bendir á nauðsyn þess að fjáraukalög séu afgreidd tímanlega. Alþingi situr allt árið og ætti að vera hægðarleikur að leita eftir heimildum þegar þörfin liggur fyrir.

Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar, leitað skýringa og fengið athugasemdir og upplýsingar frá ýmsum aðilum um beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum 1995.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 4,9 milljarða kr. hækkun á gjaldahlið fjárlaga 1995. Ljóst er að sú tala hækkar í a.m.k. 5,3 milljarða kr. samkvæmt framkomnum breytingartillögum, auk þess sem, eins og hv. formaður fjárln. gat um áðan, nokkur atriði bíða 3. umr., svo sem málefni Sjúkrahúss Reykjavíkur og Sólheima í Grímsnesi. Ef þessar tölur standast, sem reyndar má telja vafasamt í ljósi reynslunnar, má reikna með að fjárlagahalli þessa árs verði a.m.k. 9,3 milljarðar kr. eða nær 2 milljörðum kr. meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Enn einu sinni stendur Alþingi frammi fyrir umtalsverðum skekkjum á áætlanagerð fjármálastjórnar ríkisins.

Herra forseti. Vissulega geta orðið ýmis ófyrirsjáanleg atvik á fjárlagaári sem verður að bregðast við svo sem náttúruhamfarir, skyndilegir brestir í atvinnulífinu eða leiðréttingar vegna launaþróunar. Þótt ekki verði komist hjá því að samþykkja viðbótarheimildir vegna þróunar kjaramála er gagnrýnivert hversu miklu munar hverju sinni. Er ekki að undra þótt tortryggni gæti í þjóðfélaginu hvað varðar upplýsingar fjármálaráðherra um niðurstöður kjarasamninga þegar fram kemur í fjáraukalögum að launahækkanir hafi verið verulega vanreiknaðar við gerð fjárlaga.

Fjárlaganefnd fékk Ríkisendurskoðun til að gefa umsögn um frumvarpið. Í áliti Ríkisendurskoðunar er fjallað um flutning ónýttra heimilda milli ára. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Miðað við þá fjárheimild sem sótt er um (4,9 milljarðar) og líklega útkomu varðandi gjöld ríkissjóðs á árinu (3,8 milljarðar) liggur fyrir að 1,1 milljarður kr. stendur út af í árslok sem vannýtt heimild. Miðað við þá venju sem skapast hefur er sennilegt að leitað verði eftir því á næsta ári að flytja hluta þessarar vannýttu heimildar yfir á árið 1996. Í þessu sambandi er eðlilegt að spurt sé hvers vegna sótt er um hærri aukafjárveitingu en útlit er fyrir að þörf sé fyrir á árinu og jafnframt hvort ekki sé rétt að taka ákvörðun um flutning fjárheimilda til ársins 1996 við afgreiðslu fjárlaga fyrir það ár, en ekki með fjáraukalögum sem lögð verða fyrir þingið á næsta ári.`` --- Þetta eru einmitt þau atriði sem ég gat um í upphafi máls míns. --- ,,Á þessu geta reyndar verið réttmætar skýringar svo sem að fjárheimildir eru ekki teknar af stofnunum enda þótt útlit sé fyrir að þær verði ekki nýttar. Þá þarf að afgreiða fjárlög fyrir áramót áður en endanleg greiðsluafkoma fyrir árið liggur fyrir.``

Herra forseti. Minni hlutinn tekur undir þá ábendingu sem felst í tilvitnaðri umsögn Ríkisendurskoðunar og telur að draga beri verulega úr því að flytja heimildir milli ára eins og lagt er til. Athuga beri réttmæti slíkra aðgerða í hverju tilviki fyrir sig. Það er mjög óeðlilegt þegar allt að 69% ónýttra fjárheimilda er flutt milli ára eins og dæmi er um.

Þá eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar reifuð nokkur sjónarmið sem stofnunin telur eðlilegt að eigi að gilda við aukafjárveitingar. Minni hlutinn telur ríka ástæðu til að birta umrædda kafla skýrslunnar jafnframt því að taka undir sjónarmið Ríkisendurskoðunar og bendir á að þau miða að því að styrkja raunverulegt fjárveitingavald Alþingis og gera ríkari kröfur til framvæmdarvaldsins en nú er.

,,Þegar sótt er um aukafjárveitingar í fjárlögum verður að gera kröfu til að beiðnir séu vel rökstuddar. Sérstaklega er nauðsynlegt að fram komi hvers vegna útgjaldatilefni varð ekki séð fyrir þegar gildandi fjárlög voru sett þannig að afgreiða hefði mátt fjárheimildir í tengslum við setningu þeirra.``

,,Eins og málum er háttað í dag er í ýmsum tilfellum sótt um viðbótarheimildir vegna útgjalda sem þegar hafa fallið til. Af þessu leiðir að staðfestingu Alþingis á fjárlögum svipar meira til formsatriðis en að þinginu sé gefinn raunverulegur kostur á að samþykkja eða hafna útgjöldum. Að mati Ríkisendurskoðunar ætti fjármálaráðherra að sækja um fjárheimildir til Alþingis strax og tilefni gefst, og Alþingi að afgreiða slík frumvörp með skjótum hætti.``

,,Hvað varðar flutning van- og ofnýttra fjárheimilda milli ára er eðlilegt að ganga út frá því að fjárlög endurspegli raunverulegt rekstrarumfang þeirra stofnana sem þar eru tilgreindar. Í flestum tilfellum má þá gera ráð fyrir því að stofnanirnar nýti fjárheimildir sínar innan ársins. Sérstakar aðstæður geta hins vegar leitt til þess að útgjöld sem reiknað var með á árinu frestist til þess næsta eða að ófyrirséð útgjöld falli til á árinu. Í því sambandi þarf að huga vel að því hvort fjárheimild stofnunar hafi einfaldlega verið of há miðað við eðlilegan rekstur á henni og fella heimildina þá niður. Eins kann að vera að hjá stofnun hafi verið stofnað til of mikilla útgjalda og því sé lagt til að hún byrji nýtt fjárhagsár í skuld. Sé því svo varið er nauðsynlegt að fram komi hvort ætla megi að stofnunin geti hagrætt í rekstri til að mæta skertri fjárveitingu, eða hvort beinlínis sé ætlast til að dregið verði úr starfseminni.``

Frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjáraukalaga sýnir að stjórn fjármála ríkisins hefur riðlast verulega frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Þrátt fyrir verulega auknar tekjur í kjölfar þess að einkaneysla og hagvöxtur jókst meira en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga eykst fjárlagahallinn um a.m.k. fimmtung. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs eykst úr 21,9 milljörðum kr. í 31,9 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu, eða um 46%. Slíkt er mikið áhyggjuefni og hlýtur að vekja efasemdir um getu ríkisstjórnarinnar til að halda aftur af umtalsverðri vaxtahækkun og tryggja nauðsynlegan stöðugleika í efnahagsmálum.

Fulltrúar minni hlutans gera grein fyrir afstöðu sinni til einstakra tillagna sem felast í frumvarpinu og verður hún því ekki tíunduð hér, en þó er gerð athugasemd við lækkun húsaleigubóta um 180 millj. kr., úr 320 millj. kr. í 140 millj. kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að þegar var búið að greiða út tæplega 160 millj. kr. í lok september sl. og því augljóst að fjárveitingin samkvæmt frumvarpinu mun hvergi nærri duga.

Minni hluti fjárlaganefndar áskilur sér rétt til að styðja einstakar tillögur um viðbótarheimildir en situr að öðru leyti hjá við afgreiðslu frumvarpsins.

Herra forseti. Undir þetta álit rita Kristín Halldórsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Gísli S. Einarsson, sá sem hér stendur, og hef ég þar með lokið máli mínu.