Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:28:35 (1651)

1995-12-06 15:28:35# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:28]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Síðan nýju lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna tóku gildi árið 1992 hefur verið deilt um áhrif þeirra á hag námsmanna og möguleika ýmissa hópa þeirra til náms. Þeir sem gagnrýndu lagasetninguna þá sögðu að lögin mundu hafa alvarleg áhrif á sókn þeirra í nám sem höllustum fæti stóðu, sérstaklega fjölskyldufólks. Fyrir utan stórhertar endurgreiðslur voru það einkum tvær samtengdar breytingar sem hér skiptu máli. Breytingin úr samtímagreiðslum svokölluðum í eftirágreiðslur þannig að námsmenn þurfa lán í banka til að framfleyta sér yfir önnina og hins vegar stórhertar kröfur um námsframvindu sem afnámu það svigrúm sem námsmenn höfðu áður til þess að jafna sínu námi milli ára.

Strax við umræður um frv. var því spáð að þessi lög mundu koma í veg fyrir að illa stæðir námsmenn og sérstaklega barnafólk hæfi nám eða héldi því áfram. Þröngt svigrúm um framvindu námsins og áhættan vegna bankalánanna ylli því að menn gæfust upp eða hrintu frá sér hugmyndum um aukna menntun. Þessu mótmæltu frumvarpssmiðirnir og eftir að lögin tóku gildi hafa hæstv. menntamálaráðherrar Sjálfstfl. haldið því fram hvað eftir annað að þetta hafi ekki gerst. Trúnaðarmenn þessa sama Sjálfstfl. í stjórn lánasjóðsins og öðrum nefndum sem um hafa vélað hafa einnig haldið þessu fram og nánast veist að fulltrúum námsmanna þegar þeir hafa bent á stórfellda fækkun barnafólks og fleiri hópa í námi. Um þetta má rekja mörg dæmi og það er rétt að vekja athygli á því hvað þetta er mikilvægt mál að þegar Alþfl. sem á sínum tíma stóð að lögunum, samþykkti þau gegn betri samvisku a.m.k. ýmissa þingmanna þess flokks, gerðu þeir það á þeim forsendum að lögin hefðu að þessu leyti ekki áhrif á jafnrétti til náms. Það kom m.a. fram í frægri atkvæðisskýringu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem því miður er ekki staddur hér í dag, og síðar á þingi Alþfl. Í kosningabaráttunni í vor náðist svo samstaða allra annarra flokka en Sjálfstfl. um að afnema eftirágreiðslurnar, auka svigrúmið og létta endurgreiðslurnar með nýrri endurskoðun á lögunum.

Tölur sem lánasjóðurinn fékk fyrir nokkru frá Hagstofunni sýna að námsmenn og aðrir gagnrýnendur höfðu rétt fyrir sér. Barnafólki í námi fækkaði verulega strax við breytinguna 1992 og hefur síðan ekki fjölgað. Í athugun Hagstofunnar eru taldir allir námsmenn í lánshæfu námi, bæði viðskiptamenn lánasjóðsins og aðrir. Þær sýna að árið 1992 fækkaði námsmönnum í heild um 518, úr 9.583 í 9.065. Þessi fækkun var fyrst og fremst hjá námsmönnum með börn. Þeim fækkaði um 471 af þessum 518. Tölurnar sýna líka að lögin bitnuðu fyrst og fremst á konum. Í þessum tölum um fækkun milli 1991 og 1992 eru um 7 10 konur. Þróunin síðan hefur verið sú samkvæmt tölum Hagstofunnar að frá 1992 til 1994 fjölgaði námsmönnum í heild aftur um 679 en á sama tíma hefur námsmönnum með börn fækkað um 42.

Það er rétt hjá talsmönnum nýja kerfisins að fleiri nemendur koma sér nú hjá því að taka námslán en áður, vinna með náminu eða leita aðstoðar hjá fjölskyldunni sem er auðvitað ágætt, a.m.k. fyrir fjárhag sjóðsins. Barnafólk er hins vegar ekki í þeim hópi. Barnafólk kemst alla jafna ekki í nám nema með stuðningi sjóðsins og vegna þessara heimskulegu reglna um námsframvindu og eftirágreiðslnanna, treystir færra barnafólk sér til þess að afla sér menntunar. Hrakspár gagnrýnenda hafa því miður staðist. Staðreyndirnar tala. Barnafólk sem ekki treystir sér til að taka lán hjá sjóðnum fer ekki annað. Það hættir í námi eða hættir við að fara í nám.

Ég tek dæmi, forseti, sem sýnir vel hver áhættan er fyrir þetta fólk. Einstæð móðir með tvö börn hugsar sér að ljúka námi á einni önn og fær til þess námslánarétt upp á 479 þús. Hún tekur það lán í banka og þarf að greiða 10 þúsund í vexti á önninni. Tölurnar miðast við vormissiri 1995. Ef hún nær fullum árangri, 100% árangri að vori, fær hún námslán fyrir þessu öllu, allt er gott nema endurgreiðslurnar. Ef hún verður veik eða börnin tefja og hún nær ekki 75% árangri að vori, fer hún væntanlega í haustpróf sem kostar 11 þús. í vexti yfir sumarið. Nái hún þá ekki 75% árangri og þarf að klára seinna, þá fær þessi námsmaður með tvö börn enga aðstoð úr lánasjóðnum og skuldar litlar 500 þús. kr. í bankanum, hálfa milljón takk fyrir. Ef hún nær 75% árangri eftir haustpróf þá fær hún bara 75% lán og skuldar bankanum ekki nema 122 þús. kr. Við erum hér að tala um tveggja barna móður í námi. Mér finnst það satt að segja ekki furðulegt þótt færri og færri treysti sér til að leggja út í þessa áhættu gagnvart sér og börnum sínum, út í þennan háskaleik eins og það heitir í fótboltanum, út í þetta ævintýri að afla sér menntunar.

Herra forseti, lögin hafa reynst vera lög um misrétti og lög um ranglæti og líka, ágæti forseti, lög um vitlausa stjórnun í samfélagi sem býr við atvinnuleysi sem ekki verður leyst til langframa nema með síaukinni og sífelldri menntun og endurmenntun. Nú vill til að hér á þinginu er meirihlutavilji til að breyta þessum lögum. Alþýðuflokksmenn hafa lært af reynslunni og framsóknarmenn töluðu afar ljóst í vor. Nú er rétt að hæstv. menntamrh. svari því hvað hann ætlar að gera í þessu efni og hvað ríkisstjórnin ætlar að gera og ég held að það sé við hæfi að Framsfl. svari því skýrt við þessa umræðu hvernig hann hyggst efna kosningaloforð sín við námsmenn frá því í vor.