Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Miðvikudaginn 06. desember 1995, kl. 15:52:57 (1660)

1995-12-06 15:52:57# 120. lþ. 55.92 fundur 128#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur


[15:52]

Mörður Árnason:

Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil hins vegar vekja athygli þingheims á því að fólki sem nú er í námi og fólki sem hyggur á nám en kemst ekki í það er ákaflega mikið sama um það hverjir stóðu að hverju árið 1990 og 1991. Ég held að því sé alveg nákvæmlega sama um það hvort það er Alþb., Framsfl. eða hvað heitir nú þessi þriðji flokkur, Alþfl., sem stjórnar hér með Sjálfstfl. Það veit hins vegar, vegna þess að það kom mjög skýrt fram í kosningabaráttunni í vor, að Sjálfstfl. ætlaði sér ekki að taka á þessum málum. Þess vegna voru framsóknarmenn strax að svíkja sín kosningaloforð þegar þeir fóru í stjórnina með þeim. Menn vitna hér til nefndar. Það var eina svar hæstv. menntmrh. Það hefur verið svar þessara þriggja hv. framsóknarmanna sem hér hafa komið upp. Mínar fréttir af nefndinni eru að hún sé enn að ræða þrjár fyrstu greinarnar frumvarpsins. Hún hafi ekki enn talað um endurgreiðsluna. Hún hafi ekki enn talað um eftirágreiðslurnar. Hún hafi ekki enn talað um námssvigrúmið. Það er rétt að leita eftir því hvenær hún hyggst ljúka störfum, hvenær hæstv. menntmrh. vill að hún komi. Mig minnir, nú er minni mitt valt, að menn hafi viljað taka þetta frumvarp upphaflega fyrir á þessu þingi þó að nefndarskipanin færi leynt. Það er rétt að fá upplýsingar um það. Ég vil síðan fagna því sérstaklega að hæstv. menntmrh. hefur ekki gripið til sama ráðs og trúnaðarmenn hans í stjórn lánasjóðsins hafa gert síðustu daga eftir að þessar upplýsingar komu fram, þ.e. að mæla á móti þeim með aðferðum sem heyra undir blekkingar. Ég þori ekki að segja orðið lygar hér inni. Hæstv. menntmrh. Björn Bjarnason viðurkennir þessar tölur. Hann segir hins vegar: Hagstofan skýrir þær ekki. Nei, málshefjandi. Þú getur ekki sagt þetta vegna þess að Hagstofan skýrir þær ekki. Auðvitað gerir Hagstofan það ekki. Hún er ekki fréttaskýrandi. Hún er ekki pólitískur fréttaskýrandi. Hins vegar er ljóst að þetta gerðist á árunum 1991--1992. Það að hæstv. menntmrh. vitni til annarra gjalda sem Sjálfstfl. hefur sett á landsmenn og námsmenn, innritunargjöld og dagvistargjöld, þá er um það að segja að vond voru þau. Þó er innritunargjaldið að ég hygg ekki nema um 20 þús. kr. eða rúmlega það þannig að þetta er ákaflega klén skýring. Og ég spyr menntmrh. Spyr hann sem hæstv. stjórnmálamann. Spyr hann sem fréttaskýranda á ýmsum vettvangi: Hver er hans skýring á málinu?