Afnám laga nr. 96/1936

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 11:03:53 (1668)

1995-12-07 11:03:53# 120. lþ. 56.3 fundur 206. mál: #A afnám laga nr. 96/1936# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur


[11:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg hugsanlegt. Það er hugsanlegt að í lögum, einkum sérlögum sé að finna ýmis ákvæði sem eru þannig úr garði gerð að gert er ráð fyrir undanþágu frá hinni almennu skattskyldu. En ég get fullvissað hv. þm. um að á undanförnum árum, ekki bara í tíð þessarar og síðustu ríkisstjórnar heldur líka í tíð ríkisstjórnar þar á undan hafa menn kappkostað að setja almennar reglur og fylgja jafnræðisstefnunni, enda gengur það ekki lengur að það sé gerður mikill munur á sköttum milli fyrirtækja. Ég hygg þó að langsamlega stærsta undanþágan sem er nú í gildi, ef hægt er að kalla það undanþágu, séu hinar mismunandi reglur sem gilda um tryggingagjaldið þar sem fyrirtækjum er skipt í tvo flokka og bera mismunandi tryggingagjald. Í sjálfu sér eru ekki nokkur rök fyrir slíkri skiptingu. Það er hins vegar rétt að ef við ætlum að samræma þessa skattskyldu munu sum fyrirtæki, einkum í sjávarútvegi og útflutningsiðnaði þurfa að borga hærri skatta en þau borga nú og menn hafa ekki enn þá treyst sér til að breyta þessu. En ef marka má orð hæstv. sjútvrh. í þinginu um daginn virðist vera lag á næstu mánuðum, missirum, kannski árum að breyta því.