Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 13:49:40 (1680)

1995-12-07 13:49:40# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[13:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, samanber lög nr. 12/1994 og nr. 58/1995.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er klausa um húsnæðislán og þar er kveðið svo á að stefnt skuli að því að lánstími húsbréfa skuli verða breytilegur og tekið á greiðsluvanda þeirra sem í vandræðum eru með þau húsbréf sem þeir hafa þegar fengið.

Í júní sl. skipaði ég síðan nefnd til að athuga kosti þess að lengja lánstíma í húsbréfakerfinu og koma með tillögur um frekari aðgerðir til að leysa og fyrirbyggja greiðsuvanda heimilanna eða þann þátt greiðsluvanda heimilanna sem stafaði af húsnæðiskaupum. Í nefndina voru skipaðir Hákon Hákonarson, formaður húsnæðismálastjórnar, Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn., Pétur Blöndal alþm. og Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh. Formaður nefndarinnar var hv. þm. Magnús Stefánsson.

Nefndin skilaði mér tillögum sínum í skýrsluformi í lok október. Þar er lagt til að fjölga valkostum í húsbréfakerfinu, að húsbréf verði gefin út með 15, 25 eða 40 ára lánstíma eftir vali hvers og eins. Um frekari aðgerðir til að leysa greiðsluvandann er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, frestun á greiðslu án þess að til vanskila hafi komið og að skuldbreyting geti farið saman. Lögð er til sú breyting að aðstoð þessi verði færð yfir í húsbréfakerfið, en hún er nú á vegum Byggingarsjóðs ríkisins.

Í frv. er lagt til að þeir sem ætla að nota húsbréfakerfið vegna íbúðarkaupa eða endurbóta á húsnæði geti valið um þrjá kosti hvað varðar endurgreiðslutíma, þ.e. 15 ár, 25 ár eða 40 ár. Nú er lánstíminn ávallt 25 ár. Með þessu móti er komið til móts við mismunandi aðstæður fólks. Í fyrsta lagi er möguleiki á því að dreifa lánsbyrði meira en nú er og þar eru fyrst og fremst þeir hafðir í huga sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Í öðru lagi að bjóða upp á styttri lánstíma sem ætti t.d. að geta hentað þeim sem eru að skipta um íbúð eða þurfa að fjármagna endurbætur á eldra húsnæði. Verði lánstími lengdur úr 25 í 40 ár getur greiðslubyrðin lækkað um 15--17% en verði lánstími styttur í 15 ár verður greiðslubyrðin hærri og eignamyndun að sama skapi hraðari. Hér er því fólki boðið upp á val sem það hefur ekki haft áður og það getur aðlagað lánstíma að þörfum sínum og aðstæðum hverju sinni. Val á lánstíma mun einnig ráðast af aðstæðum á fjármagnsmarkaði hverju sinni og hvernig kaupin gerast þar með húsbréf. Ávöxtunarkrafan verður auðvitað lykilatriði. Nokkur umræða hefur verið um þann möguleika að lána með húsbréfum til 40 ára og hafa margir tekið það sem gefið að ávöxtunarkrafan verði miklu hærri á lengri bréfum. Reynsla erlendis frá sýnir að þessu getur verið öfugt farið og fagmenn á verðbréfamarkaði hér heima hafa bent á hið sama.

Bjarni Ármannsson hjá Kaupþingi hefur rannsakað málið gaumgæfilega og skilað um það ítarlegri skýrslu. Hann telur að 40 ára húsbréf geti verið vænlegur kostur, bæði fyrir lántaka og fjárfesta. Davíð Björnsson hjá Landsbréfum hefur tekið undir þetta sjónarmið og mælir með 40 ára húsbréfum sem mjög góðum kosti fyrir lífeyrissjóði.

Um aðstoð við greiðsluerfiðleika er lögð til sú kerfisbreyting að aðstoðin færist yfir í húsbréfakerfið í stað þess að vera innan Byggingarsjóðs ríkisins eins og nú er. Lögð er áhersla á fyrirbyggjandi aðstoð, þ.e. heimilt er að fresta greiðslum í allt að þrjú ár áður en til vanskila kemur. Ef vanskilum er skuldbreytt, verður það gert með útgáfu húsbréfa til 15 ára. Tímamarkið 15 ár tekur mið af núgildandi reglugerð um skuldbreytingar, en meðallánstími vegna skuldbreytinga er nú 10 ár. Í frv. er lögð áhersla á að þessar tvær leiðir, skuldbreyting og frestun á greiðslum geti farið saman og geti náð yfir allt að fimm ára greiðsluerfiðleikatímabil samanlagt. Þannig megi t.d. skuldbreyta vanskilum síðustu tveggja ára og veita greiðslufrest næstu þrjú árin með útgáfu húsbréfa til 15 ára.

Með því að festa aðstoð við greiðsluerfiðleika í sessi innan húsbréfakerfisins eins og frv. gerir ráð fyrir, fær aðstoð í greiðsluerfiðleikum sama lagalega vægi og önnur lánafyrirgreiðsla innan húsbréfakerfisins í stað þess að byggjast annars vegar á tímabundnu ákvæði í lögum og hins vegar í reglugerð eins og nú er. Þetta tel ég þýðingarmikið atriði.

Skilyrði fyrir því að eiga rétt á aðstoð eru efnislega þau sömu og verið hefur, þ.e. að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minnkandi atvinnu, atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Lögð er sérstök áhersla á þann möguleika að geta fengið fyrirgreiðslu áður en í óefni er komið. Aðgerðir eru ekki bundnar eingöngu við fólk sem er í vanskilum. Fólk sem sér fram á erfiða greiðslubyrði vegna breytinga á afkomu getur sótt um frestun á greiðslum í allt að þrjú ár.

Reiknuð hafa verið út dæmi í frv. sem skýra vel hvernig greiðslufrestun annars vegar og skuldbreyting ásamt greiðslufrestun hins vegar geta komið fólki að notum og óþarft að endurtaka það hér.

Þá er rétt að taka það fram að til þess að njóta þess að geta skuldbreytt með þessum hætti, þá þurfa menn að sjálfsögðu að eiga 65% veðmöguleika.

Að öðru leyti, herra forseti, eru í frv. þrjú óskyld atriði. Þar er fyrst að nefna að lagt er til að bankaeftirlit Seðlabankans hafi eftirlit með starfsemi húsbréfadeildar, en nú er það svo að bankaeftirlitið hefur aðeins eftirlit með húsbréfum á eftirmarkaði. Hér er haft í huga hve umfangsmikil útgáfa húsbréfa er og hversu frábrugðin starfsemi húsbréfadeildar er annarri starfsemi Húsnæðisstofnunar. Höfð er hliðsjón af lögum nr. 123 frá 1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, en starfsemi þeirra stofnana heyrir alfarið undir bankaeftirlitið. Það mikil líkindi eru með starfsemi slíkra stofnana og húsbréfadeildar að rétt er að sömu reglur gildi um eftirlit með þeim.

Næst er að víkja að eftirliti Húsnæðistofnunar ríkisins með byggingarsamvinnufélögum. Lagaákvæði þar að lútandi hefur um nokkurt árabil verið óvirkt. Slíkt er afleitt og að sjálfsögðu er tvennt til ráða. Gera eftirlitið virkt á nýjan leik eða fella ákvæðið úr gildi. Hér varð síðari kosturinn fyrir valinu og ástæðan er bæði sú að Húsnæðisstofnun telur ákvæðið óframkvæmanlegt og ekki síður hin að lagaleg staða byggingarsamvinnufélaga er orðin önnur en áður var. Tengsl ríkisins og byggingarsamvinnufélaga hafa breyst. Lán byggingarsamvinnufélaga eru ekki lengur með ríkisábyrgð og framkvæmdalán til félaganna hafa verið aflögð. Félagsmönnum er gert kleift að fylgjast með framkvæmdum og fjárreiðum byggingarsamvinnufélaga með því að kjósa menn úr sínum hópi sem hafa aðgang að öllum gögnum félagsins. Því er litið svo á að eftirlitsskylda með byggingarsamvinnufélögum hvíli fyrst og fremst á félagsmönnum sjálfum. Að öllu þessu samanlögðu er niðurstaðan sú að fella brott ákvæði 2. mgr. 99. gr. laganna sem kveður á um eftirlit Húsnæðisstofnunarinnar með byggingarsamvinnufélögunum. Það er síðan annað og stærra viðfangsefni hvort ákvæði um byggingarsamvinnufélög eigi nú við breyttar aðstæður enn heima innan laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Að lokum er í frv. að finna lagatæknilega leiðréttingu á 3. mgr. 58. gr. a, sem sett var með lögum nr. 12/1994. Í lögum nr. 58/1995 var gerð sú breyting varðandi félagslegar íbúðir að einungis hækkaðar tekjur en ekki eignir geta leitt til hækkunar á vöxtum Byggingarsjóðs verkamanna. Þá var verið að þrengja þau ákvæði sem leiða til hækkunar á vöxtum í félagslega kerfinu. Þegar þessi lög voru sett hefur láðst að gera nauðsynlega breytingu á 3. mgr. 58. gr. a sem fjallar um endurskoðun vaxta á lánum Byggingarsjóðs verkamanna þegar lögbýli eiga í hlut og því er lagt til að hér verði úr því bætt.

Herra forseti. Að endaðri þessari umræðu geri ég tillögu um það að frv. verði sent hv. félmn. til athugunar.