Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:26:21 (1691)

1995-12-07 15:26:21# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:26]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki erfið málsvörn. Raunar þarf ég ekki að vera í neinni vörn. Hluti af kosningaloforðunum er efndur með frumvarpinu. Boðið er upp á sveigjanleg húsbréf. Gefinn er kostur á lengdum húsbréfalánum upp í 40 ár og búið er til úrræði handa þeim sem eru í vandræðum með húsbréfin sín nú þegar og eru komnir í vanskil.

Varðandi það að alla hluti eigi að leysa í einu, þá skil ég vel hv. þm. Hann er náttúrlega stórhuga og vanur sverum yfirlýsingum. Ég man eftir því að leiðtogi hans til margra ára flutti einu sinni á Alþingi þáltill. Ég er að tala náttúrlega um hv. 8. þm. Reykn. Ólaf Ragnar Grímsson. Hann flutti á Alþingi einu sinni þáltill. um allsherjarupprætingu skattasvika. Það var nú ekki lítið í ráðist.

Við lofuðum 12.000 störfum aldrei fyrir áramót. Við töluðum um aldamót. Ég vek athygli hv. þm. á því að samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar hafa orðið til, frá því að við fórum að tala um þessi 12.000 störf, 5.000 störf í landinu. 5.000 störf nú þegar, síðan í nóvember í fyrra þegar við héldum okkar flokksþing og byrjuðum að tala um 12.000 störf sem við þyrftum til aldamóta. Það er ekki ég sem fann þetta upp, heldur gefur Hagstofan það út að síðan núv. ríkisstjórn var mynduð hafi störfum fjölgað um 3.500.